Draumur um frægðarför heim til Eyja

Sindri Snær Magnússon í liði ÍBV verður í eldlínunni í …
Sindri Snær Magnússon í liði ÍBV verður í eldlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Við erum spenntir, mjög spenntir,“ segir Sindri Snær Magnússon fyrir bikarúrslitaleik ÍBV og FH á Laugardalsvelli í dag, en hann hefur borið fyrirliðaband ÍBV í sumar. Eyjamenn eru á leið í sinn annan bikarúrslitaleik í röð, en í fyrra töpuðu þeir fyrir Valsmönnum. Sindri var ekki með í þeim leik vegna meiðsla, en hann er ekki ókunnur bikarúrslitaleikjum þar sem hann fór alla leið með Keflavík árið 2014 en þurfti þá að sætta sig við silfurpeninginn um hálsinn.

„Já, ég er búinn að vera ansi nálægt þessu tvisvar. Þetta er skemmtilegasti leikurinn á Íslandi, það er alveg klárt mál. Þetta er stærsti leikurinn, flestir áhorfendur og það eru allir í þessu til þess að spila svona leiki. Við erum staðráðnir í að gera betur en í fyrra. Við erum ekki að fara í þennan leik til þess að tapa honum, það er alveg á hreinu,“ segir Sindri Snær.

Eins og í fyrra er búist við því að Eyjamenn muni styðja vel við bakið á sínu liði og menn voru meira að segja með stórar yfirlýsingar á Þjóðhátíð um liðna helgi.

„Það voru margir sem mættu í fyrra og vonandi mæta ennþá fleiri núna. Það voru kallar sem töluðu um það á Þjóðhátíð að þeir ætluðu ekki að fara út með skipin sín um helgina, þeir yrðu í landi til þess að mæta á leikinn í staðinn fyrir að vera á sjónum.“

Mikill samhugur í Eyjum þar sem íþróttalífið snýst um þetta

ÍBV er að spila til úrslita í bikarkeppninni í 12. sinn frá árinu 1968. Í ellefu úrslitaleikjum til þessa hafa Eyjamenn tapað sjö en unnið fjóra. Þeir urðu bikarmeistarar árin 1968, 1972, 1981 og 1998 og því er nokkuð um liðið frá síðasta titli, þó íþróttalífið sé jafnan afar blómlegt í Eyjum og þekkt er þegar íþróttalið sigla inn höfnina með bikarinn eftir frægðarför upp á land.

„Það er alltaf mikill samhugur og íþróttalífið í Eyjum snýst um þetta. Það er gaman þegar gengur vel. Þessi draumur lifir og hann verður vonandi að veruleika. Það eru allir með sama fiðringinn fyrir því. Það er of langt síðan fótboltinn gerði eitthvað slíkt, það er handboltinn sem hefur séð um það. Nú er komið að fótboltanum,“ segir Sindri.

Greinina í heild sinni má finna í 12 síðna sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um bikarúrslitaleik karla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert