Fyrsti titill Ásgeirs á glæstum ferli

Ásgeir Sigurvinsson fagnar sigri á Ítölum sem landsliðsþjálfari Íslands árið ...
Ásgeir Sigurvinsson fagnar sigri á Ítölum sem landsliðsþjálfari Íslands árið 2004. mbl.is/Brynjar Gauti

Ásgeir Sigurvinsson, einn besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi, var í bikarmeistaraliði ÍBV í frægum leik gegn FH þegar liðin áttust við í úrslitaleiknum 1972. Leikurinn var spilaður á Melavellinum 12. nóvember í nístingskulda þar sem ÍBV vann 2:0, en þetta var fyrsta og eina tímabil Ásgeirs í meistaraflokki hér á landi.

„Þetta var fyrsti titillinn með meistaraflokki, en við vorum reyndar nánast búnir að vinna alla flokka þarna í Eyjum á þessum tíma. Ég man eftir því að þessum leik var frestað margoft, enda ekki spilað fyrr en í nóvember. Mig minnir að það hafi verið gullskallinn sem skoraði bæði mörkin fyrir okkur. Mig rámar nú aðeins í þetta, þótt það sé langt síðan!“ segir Ásgeir þegar hann rifjar leikinn upp með blaðamanni Morgunblaðsins og fór þar ekki með rangt mál enda skoraði Haraldur Júlíusson, oft nefndur gullskallinn, bæði mörk ÍBV í leiknum.

Eins og Ásgeir minnist á hafði leiknum verið frestað þar sem ófært var flugleiðina milli lands og Eyja helgina áður. En að lokum var það svo varðskipið Ægir sem flutti lið ÍBV til og frá leiknum. Við komuna til Eyja með bikarinn beið fjöldi manns og fagnaði liðinu.

Í æfingagalla undir stuttbuxunum

„Mig minnir að siglingin hafi verið tiltölulega þægileg, ekki verið neitt brjálað veður. Það var vel tekið á móti okkur. Þetta var mikill fögnuður og ég man ekki betur en að það hafi verið töluvert af fólki á bryggjunni þegar við komum,“ segir Ásgeir.

Þetta var síðasti bikarúrslitaleikurinn sem spilaður var á Melavellinum. Árið eftir var fyrirkomulaginu breytt, leikurinn spilaður fyrr og fór fram á Laugardalsvelli eins og hann gerir í dag. Það helsta sem Ásgeir man frá úrslitaleikunum 1972 er einmitt nóvemberkuldinn.

„Ég held að menn hafi bara verið í æfingagalla innan undir stuttbuxunum, þetta var bara þannig. Ef ég man rétt var bara bleyta og drulla á vellinum, en leikurinn fór engu að síður fram. Mig minnir að það hafi aldrei verið í hættu að vinna þennan leik. Við áttum ansi góðan leik þarna,“ segir Ásgeir.

Greinina í heild sinni má finna í 12 síðna sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um bikarúrslitaleik karla.

Ásgeir Sigurvinsson með verðlaunapening sinn eftir leikinn 1972.
Ásgeir Sigurvinsson með verðlaunapening sinn eftir leikinn 1972. Ljósmynd/Guðmundur Sigfússon