Töluðum aðallega um að fá okkur öl eftir leikinn

Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var nokkuð sáttur með stigið sem lið hans fékk eftir 1:1 jafntefli við Stjörnuna í toppslag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Sigur hefði komið Valsmönnum ansi nálægt titlinum, en hlutirnir eru í þeirra höndum með þriggja stiga forskot þegar fjórar umferðir eru eftir.

Auðvitað hefðum við viljað leikinn. Sigur hefði komið okkur í frábæra stöðu en jafntefli er ásættanlegt. Við erum í góðri stöðu,“ sagði Ólafur eftir leik og var sérstaklega ánægður með það að Valsmenn þurfa ekki að treysta á neina nema sjálfa sig.

„Það er það sem við viljum og fyrir mót sögðum við það að við vildum vera í baráttu að vinna mótið þegar lítið væri eftir og við erum það svo sannarlega,“ sagði Ólafur, en var ekkert sérstaklega sáttur við spilamennsku liðsins í kvöld þótt stigið hefði verið kærkomið.

„Mér fannst við ekki nógu góðir í þessum leik. Við eigum að geta gert betur og sérstaklega í fyrri hálfleik. Við tókum leikinn yfir þegar á leið, en jafntefli held ég að séu sanngjörn úrslit,“ sagði Ólafur.

Hann og Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, stóðu lengi saman á vellinum eftir leik og ræddu saman. Hvað fór þeirra á milli?

„Við vorum nú aðallega að tala um það hvort við ættum ekki að fá okkur öl eftir leikinn. Það var eiginlega ákveðið að gera það!“ sagði Ólafur Jóhannesson, hinn hressasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert