„Þetta var til skammar“

Úrslitin á töflunni á Kybunpark-leikvanginum í dag.
Úrslitin á töflunni á Kybunpark-leikvanginum í dag. AFP

„Þetta var til skammar og við þurfum að svara þessu. Okkur hefur gengið vel í nokkur ár og nú þurfum við að sýna hversu sterkir við erum andlega,“ sagði Viðar Örn Kjartansson í samtali við mbl.is eftir 6:0-tapið fyrir Sviss í St. Gallen. 

Viðar kom inn á sem varamaður í stöðunni 3:0 og spilaði tæplega hálftíma í sínum fyrsta mótsleik fyrir Ísland í tæplega eitt og hálft ár. „Þeir komust í 1:0 snemma eftir gott skot sem lítið var hægt að gera í. Ég kom inn á í stöðunni 3:0. Freysi (Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari) segir við mig að ég þurfi að reyna að halda boltanum því okkur tókst engan veginn að halda boltanum innan liðsins. Við vorum kannski aðeins meira með boltann eftir að ég og Elmar (Theódór Elmar Bjarnason) komum inn á en við fengum alltaf mark í andlitið þegar við töpuðum boltanum. Það var mín upplifun af þessum leik,“ sagði Viðar Örn ennfremur við mbl.is. 

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. AFP
mbl.is