Erfiðasti kafli í sögu KA er að baki

Srdjan Tufegdzic á hliðarlínunni hjá KA.
Srdjan Tufegdzic á hliðarlínunni hjá KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Srdjan Tufegdzic kveðst kveðja KA-menn mjög sáttur eftir þrettán ár hjá Akureyrarfélaginu og þjálfari þess frá því síðsumars árið 2018. KA tapaði 4:0 fyrir Breiðabliki í lokaumferð Pepsi-deildar karla í dag og endar í 7. sæti en Túfa sagði við mbl.is að þessi leikur skipti ekki miklu máli í stóra samhenginu.

„Nei, hann gerir það ekki. Allir leikir skipta máli en Breiðablik var of stór biti fyrir það unga lið sem við vorum með. Við vorum í rosalegum vandræðum með að stilla upp liði að þessu sinni því þrír voru meiddir og fjórir í leikbanni. En aftur á móti fengu sex ungir leikmenn að spreyta sig, ýmist að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði eða fyrsta leik í deildinni, þannig að það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt,“ sagði Tufegdzic.

„Úrslitin í þessum leik breyta engu um allt það sem gerðist á þessum þrettán árum með félaginu. Erfiðasti kafli í sögu KA er að baki, við erum búnir að koma liðinu frá því að vera miðlungs 1. deildarlið í að vera gott og stabílt úrvalsdeildarlið, þannig að ég geng stoltur frá borði. KA á góða og skemmtilega tíma fyrir höndum.

Eftir að þið komuð upp í úrvalsdeildina hafið þið endað um hana miðja í bæði skiptin. Vantaði ekki einhvern herslumun til að fara lengra?

„Jú, það er vel orðað, okkur hefur einmitt vantað þennan herslumun. Vantað að hafa lykilmennina heila, svo er líka fullt af smáatriðum sem við hefðum getað gert betur, en þegar upp er staðið og horft til baka er þetta búinn að vera flottur árangur í þessi tvö ár með KA í efstu deild.

Þegar ég tók við þjálfuninni fyrir þremur árum síðan var liðið í sjötta sæti í 1. deildinni, var í tólf ár í 1. deild og ekki nálægt því að fara upp. Nú er þetta orðinn stabíll úrvalsdeildarklúbbur, margir ungir strákar hafa fengið tækifæri og spila með yngri landsliðum, þannig að það eru bjartir tímar fram undan fyrir KA.

En hvert ferð þú?

„Það er góð spurning en kemur í ljós á næstu dögum. Ég er mjög metnaðarfullur en þreifingarnar eru rétt að byrja og ég býst við að þetta skýrist fljótlega,“ sagði Túfa og spurður hvort hann yrði áfram á Íslandi svaraði hann: „Já, mjög líklega.“ Meðal liða á lausu fyrir næsta tímabil eru ÍBV og Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert