Vonandi klár með landsliðinu í júní

Kolbeinn Sigþórsson verður í treyju númer 30 hjá AIK.
Kolbeinn Sigþórsson verður í treyju númer 30 hjá AIK. Ljósmynd/AIK

Ég tók þetta skref núna og taldi það vera seinasta sénsinn til að vera klár í sumarglugganum með landsliðinu,“ segir Kolbeinn Sigþórsson við mbl.is en þessi 29 ára gamli markahrókur sér nú loks fram á bjartari tíma eftir hálfgerða gíslingu hjá Nantes í Frakklandi.

Kolbeinn var í gær kynntur sem nýr leikmaður Svíþjóðarmeistara AIK og að undangenginni læknisskoðun samdi hann við félagið til ársloka 2021.

„Það var mikill áhugi frá Norðurlöndunum og einhver áhugi frá Asíu sömuleiðis, en ég taldi ekki rétta augnablikið núna að fara þangað. Mér finnst sænska deildin spennandi og ég taldi að þetta væri besti staðurinn fyrir mig til þess að komast aftur af stað,“ segir Kolbeinn við mbl.is.

Byrjaður að spila eftir mánuð?

Keppni í sænsku úrvalsdeildinni hófst í gær en í ljósi þess að Kolbeinn spilaði síðast í nóvember, með landsliðinu, og hefur sáralítið spilað síðustu tvær leiktíðir hjá Nantes fer hann sér að engu óðslega.

„Ég er búinn að ákveða að taka stöðuna bara viku fyrir viku, en ég er með það í hausnum að koma kannski aftur inn á völlinn eftir mánuð. Það er hins vegar erfitt að segja. Ég þarf að vera þolinmóður og bíða eftir því að ég komist í rétt stand til að geta byrjað,“ segir Kolbeinn.

Í sambandi við Hamrén

Aðdáendur íslenska landsliðsins spennast eflaust upp við þessi tíðindi en Ísland mætir Albaníu og Tyrklandi í afar þýðingarmiklum leikjum í undankeppni EM í júní. Kolbeinn er næstmarkahæstur í sögu landsliðsins með 23 mörk í 48 A-landsleikjum:

„Ég verð vonandi orðinn klár og kominn í gott stand til að sýna að ég geti mögulega verið valinn í hópinn. Ég tók þetta skref núna og taldi það vera seinasta sénsinn til að vera klár í sumarglugganum með landsliðinu. Þetta kemur því á góðum tíma fyrir mig, þó að auðvitað hefði þetta mátt gerast löngu fyrr. En staðan var bara svona og núna er mitt að taka skrefið fram á við. Ég er hrikalega spenntur fyrir því að koma mér aftur í landsliðið og það tekur vonandi styttri tíma en lengri,“ segir Kolbeinn en landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén hefur fylgst vel með hans stöðu:

„Ég talaði við Hamrén og Frey [Alexandersson] um stöðuna, Hamrén hringdi í mig í janúar og spurði um stöðuna, og tilkynnti mér það að hann vonaðist til að ég færi að koma mér í nýtt lið. Hann fylgist alla vega með stöðunni á mér og vonandi verð ég byrjaður að spila og sýni að ég geti verið valinn í sumar,“ segir Kolbeinn.

Ítarlegt viðtal við Kolbein verður í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Kolbeinn Sigþórsson lék síðast leik í nóvember, í vináttulandsleik gegn …
Kolbeinn Sigþórsson lék síðast leik í nóvember, í vináttulandsleik gegn Katar, þar sem hann skoraði sitt 23. landsliðsmark. QFA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert