Fram spilar í Safamýrinni í sumar

Frá leik Fram og HK á Laugardalsvelli síðasta sumar.
Frá leik Fram og HK á Laugardalsvelli síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalið Fram í fótbolta mun spila heimaleiki sína í sumar á gervigrasi á Framvellinum í Safamýri. Þetta staðfesti Daði Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fram, í samtali við fotbolti.net í dag. 

Fram hefur spilað á Laugardalsvelli um áraraðir, að undanskildu sumrinu 2015, er liðið lék í Úlfarsárdal. Þar standa framkvæmdir yfir á framtíðaraðstöðu Fram. Völlurinn í Úlfarsárdal fékk hins vegar ekki samþykki frá KSÍ árið eftir og hefur Fram því leikið á Laugardalsvelli síðustu þrjú sumur. 

Fram lék nokkra leiki á Framvellinum í byrjun síðasta sumars á meðan Laugardalsvöllurinn var ekki tilbúinn til notkunar. Vallarsvæðið í Safamýri hefur hins vegar ekki uppfyllt kröfur KSÍ, en stefnt er að breytingum. 

„Á næstu dögum og vikum verður sett upp stúka til að uppfylla kröfur um nægilegan fjölda sæta á vellinum. Varamannaskýlin verða stækkuð og malbikið umhverfis völlinn verður lagt gervigrasi,“ sagði Daði Guðmundsson í samtali við fotbolti.net

mbl.is