Keflavík er á allra vörum

Natasha Moraa Anasi leikmaður Keflavíkur sækir að Ídu Marín Hermannsdóttur …
Natasha Moraa Anasi leikmaður Keflavíkur sækir að Ídu Marín Hermannsdóttur í leik Keflavíkur og Fylkis. mbl.is/Hari

Ef einhver var enn að efast um að aðeins tveggja liða barátta yrði um Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu í ár verður sá hinn sami sennilega að láta af þrjóskunni.

Hins vegar stefnir enn frekar í ógnarspennandi botnbaráttu í Pepsi Max-deildinni þar sem ómögulegt er að spá um gengi fimm neðstu liðanna.

Nýliðar Keflavíkur stálu senunni aðra umferðina í röð með því að bursta Stjörnuna, 5:0, eftir að hafa unnið KR 4:0 þar á undan. Eftir fimm tapleiki í röð í byrjun mótsins hafa Keflvíkingar minnt hressilega á sig, komist upp úr fallsæti og eru með langbestu markatöluna af liðunum í neðri hluta deildarinnar. Gott sjálfstraust er gulls ígildi í fallbaráttu og Keflvíkingar hafa það fram yfir liðin í kringum sig sem eru öll í hnút á þessari stundu.

Keflavík er með sex stig eins og HK/Víkingur en Selfoss og Fylkir hafa aðeins stigi meira eftir jafntefli sín á milli í umferðinni. Stjarnan er svo alls ekki langt frá með níu stig og er að sogast neðar eftir þrjá tapleiki í röð og skellinn gegn Keflavík. KR er með fjögur stig á botninum eftir jafnteflið fyrir norðan og augljóst að mestu sviptingarnar í deildinni í ár verða í fallbaráttunni. Hvert feilspor getur vegið þungt.

Á toppnum mega Breiðablik og Valur hins vegar ekki heldur við því að misstíga sig á meðan bæði halda áfram að hala inn öll stig sem í boði eru. Blikarnir voru reyndar ansi nálægt því að tapa fyrstu stigunum eftir ótrúlegan sigur á HK/Víkingi, þar sem sigurmark Öglu Maríu Albertsdóttur með nánast síðustu spyrnu leiksins tryggði 2:1 sigur og þrjú stig. Blikar áttu 28 tilraunir að marki andstæðingsins í leiknum, þar af 18 á rammann, og er því ekki að ástæðulausu að Audrey Baldwin, markvörður HK/Víkings, var fyrst á blað í lið umferðarinnar hjá Morgunblaðinu.

Sjá má grein­ina í heild sinni á íþrótt­asíðum Morg­un­blaðsins í dag þar sem út­nefnd­ur er leikmaður 7. um­ferðar, besti ungi leikmaður 7. um­ferðar og birt úr­valslið Morg­un­blaðsins úr um­ferðinni ásamt stöðunni í M-gjöf­inni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert