Cloé enn ekki lögleg með landsliðinu

Jón Þór Hauksson stýrir upphitun íslenska liðsins.
Jón Þór Hauksson stýrir upphitun íslenska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, er spenntur fyrir leikjum gegn Norður-Írlandi, Skotlandi og Úkraínu í byrj­un næsta mánaðar. Ísland er á meðal þátt­tak­enda á Pinatar-bik­arn­um á Spáni. 

„Við erum mjög ánægð með að fá þessa leiki. Við förum til Spánar og spilum þrjá leiki, sem er sambærilegt við það sem við þekkjum frá Algarve. Það eru frábærar aðstæður til að spila fótbolta og æfa, æfingasvæðið er frábært. Ég er mjög ánægður með það,“ sagði Jón í samtali við mbl.is í dag. Leikirnir verða þeir fyrstu síðan liðið lék við Lettland í október. 

„Það er sérstakt og óvenjulangur tími á milli leikja núna. Það er slæmt fyrir okkur að janúarglugginn hafi dottið út. Við fengum frábært verkefni í janúar í fyrra þegar við spiluðum við Skota á LA Manga. Því miður eru þeir leikdagar ekki til lengur hjá FIFA. Við þurfum að skoða nóvembergluggann betur og nýta hann betur. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða í framhaldinu.

Stórt ár framundan 

Íslenska liðið verður saman í tíu daga á Spáni og eftir það taka við leikir við Ungverjaland og Slóvakíu á útivelli í undankeppni EM. 

„Þetta er langur tími sem við fáum með liðinu núna og hann er kærkominn. Við þurfum að nýta þennan tíma vel. Undankeppnin hefst strax aftur í apríl og þar ætlum við okkur stóra hluti. Það er stórt ár fram undan hjá okkur.“

Jón segir andstæðingana ekki eins sterka og á Algarve, en það gæti reynst jákvætt. 

„Það er blanda og ég er ánægður með að við fáum ólíka leiki. Eitt af okkar markmiðum er að halda boltanum betur innan liðsins og byggja upp sóknir sem byrja á markmanni eða vörn. Til þess þurfum við leiki þar sem við erum meira með boltann. Algarve í fyrra og undanfarin ár hafa verið sterkari leikir og því minna um tækifæri um að vera mikið með boltann. Við teljum að þetta sé betra verkefni fyrir okkur.“

Tveir nýliðar eru í hópn­um, en þær Berg­lind Rós Ágústs­dótt­ir og Natasha Anasi hafa aldrei áður verið vald­ar. Natasha, leikmaður Kefla­vík­ur, er stuttu kom­in með ís­lensk­an rík­is­borg­ara­rétt.

Cloé Lacasse hefur spilað gríðarlega vel í Portúgal.
Cloé Lacasse hefur spilað gríðarlega vel í Portúgal. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

„Þær hafa báðar staðið sig gríðarlega vel í boltanum hérna heima og eru kraftmiklir og öflugir leikmenn. Þær eiga skilið tækifæri í þessum hóp og ég er spenntur að sjá hvernig þær nýta tækifærið og standa sig. Það er jákvætt.“

Cloé Lacasse er ekki í landsliðshópnum, þrátt fyrir að vera með ríkisborgararétt og að hafa staðið sig gríðarlega vel með SL Benfica í Portúgal. Cloé er enn ekki orðin lögleg með landsliðinu. 

Natasha Anasi er í fyrsta skipti í landsliðshóp Íslands.
Natasha Anasi er í fyrsta skipti í landsliðshóp Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er erfitt fyrir alla. Natasha fær sitt ríkisfang seinna en venjulega en keppnisleyfi fyrr. Hún uppfyllir allar kröfur FIFA og getur spilað strax. Það er öðruvísi með Cloé. Það er í ferli og er í ferli hérna innanhúss. Vonandi fáum við svör sem allra fyrst um það.“

Þjálfaranámskeið meðfram leikjum og æfingum

Leikmenn liðsins gera meira en að spila fótbolta á Spáni, því á milli leikja og æfinga, verður boðið upp á þjálfaranámskeið, fyrir þá leikmenn sem hafa áhuga á slíku. Jón Þór er ánægður með framtakið, sem leikmenn sjálfir stungu upp á. 

„Það er að mínu mati gríðarlega gleðilegt og jákvæðar fréttir að KSÍ geti boðið upp á þetta. Það er frumkvæði leikmanna að skoða þetta. Ég er mjög ánægður með að það hafi gengið eftir. Vonandi nýta sem flestir leikmenn nýti sér þetta og geti tekið fyrsta eða annað stigið upp í B-gráðuna í þjálfun. Það er okkar hagur að sem flestir leikmenn hafi áhuga á því og skili sér út í þjálfun. Það er mikilvægt fyrir kvennaknattspyrnu,“ sagði Jón Þór Hauksson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert