Verður aftur í lykilhlutverki í Breiðholtinu

Hjalti Sigurðsson.
Hjalti Sigurðsson. Ljósmynd/Leiknir R.

Knattspyrnumaðurinn Hjalti Sigurðsson mun spila með Leikni í 1. deildinni í sumar, annað árið í röð, en hann kemur að láni frá uppeldisfélagi sínu KR. Leiknismenn segja frá þessu á Twitter-síðu sinni.

Hjalti er tvítugur varnarmaður og á hann fjölmarga leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands, þar af fjóra fyrir U21 liðið. Hann spilaði 18 leiki með Leikni í 1. deildinni í fyrra en hann á þrjá leiki í efstu deild með KR. Leiknir hafnaði í 3. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð, tveimur stigum frá Fjölnismönnum sem fóru upp í úrvalsdeild.

Hjalti er enn einn liðsstyrkurinn sem Leiknismenn hafa bætt við sig fyrir sumarið en áður hafði Brynjar Hlöðversson snúið aftur til liðsins eftir tveggja ára veru í Færeyjum og þá spila tvíburarnir Dagur og Máni Austmann einnig í Breiðholtinu í sumar. Alfreð Már Hjaltalín kom frá ÍBV og Ásgeir Þór Magnússon úr Stjörnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert