Nýliðarnir fengu stig í Fossvogi

Reykjavíkurfélögin Víkingur og Fjölnir gerðu 1:1 jafntefli í fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Víkingsvellinum í kvöld. 

Fín byrjun fyrir nýliðana í Fjölni sem tefla fram lítt reyndu liði. Niðurstaðan er vonbrigði fyrir bikarmeistarana í Víkingi sem ætla sér stóra hluti í sumar. 

Fá færi litu dagsins ljós í fyrri hálfleik en Óttar Magnús Karlsson kom þá Víkingi yfir 1:0 með lúmsku skoti úr aukaspyrnu á 16. mínútu. Óttar, sem er örvfættur, tók aukaspyrnu fyrir utan vítateigshornið vinstra megin og skaut í nærhornið. Þar mátti setja spurningamerki við varnarvegginn hjá Fjölni. En virkilega vel gert einnig hjá Óttari.

Óttar skaut einnig framhjá af markteig í fyrri hálfleik en var með varnarmann í sér.

Fjölnismenn voru áræðnari í upphafi síðari hálfleiks en þeir höfðu ekki náð að skapa sér nein færi í fyrri hálfleik. Víkingar höfðu svo sem ekki skapað fleiri en þau tvö sem minnst var á. 

Arnór Breki Ásþórsson jafnaði á 57. mínútu. Orri fer fram kantinn hægra megin og sendi fyrir markið. Arnór Breki var aðgangsharður en Víkingarnir Davíð og Júlíus reyndu einnig við boltann. Júlíus virðist hafa sparkað i Arnór og þaðan í netið. En ekki var auðvelt að sjá af hverjum boltinn fór í netið.

Víkingar höfnuðu í sjöunda sæti deildarinnar í fyrra og urðu bikarmeistarar. Fjölnismenn leika nú aftur í deildinni eftir árshlé en þeir höfnuðu í öðru sæti 1. deildarinnar í fyrra.

Virkaði vel að vera með þrjá miðverði

Þegar Íslandsmótið í knattspyrnu er að hefjast skiptir ekki öllu máli hvað liðin gerðu árið áður Það líður svo langt á milli mótanna að menn þurfa að byrja upp á nýtt og í ár var enn lengri bið eftir mótinu. Eflaust bjuggust margir við öruggum heimasigri bikarmeistaranna gegn nýliðunum en það varð ekki niðurstaðan. Leikurinn var auk þess býsna jafn þegar uppi var staðið. 

Fjölnismenn léku með þrjá miðverði og það virkaði vel gegn Víkingi í kvöld. Óttar var nánast sá eini hjá Víkingi sem átti skottilraunir í leiknum og nokkrar þeirra utan teigs. Markvörðurinn Atli Gunnar Guðmundsson virtist öruggur í sínum aðgerðum miðað við að hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild. Varði auk þess glæsilega frá Óttari seint í leiknum. 

Fjölnismenn virtust vel skipulagðir, sérstaklega miðað við hvernig úr undirbúningstímabilinu spilaðist. Ef eitthvað er að marka leikinn í kvöld þá mega sterkari liðin hafa fyrir því að brjóta Fjölnisliðið niður. 

Þeir eru líklega meira spurningamerki í sókninni. Þegar þeir urðu áræðnari í síðari hálfleik þá náðu þeir að skapa færi stöku sinnum sem var betra en í fyrri hálfleik. Ingibergur Kort var harðduglegur í framlínunni en svolítið einmanna á köflum. Jóhann Árni þykir hæfileikaríkur en var lítið með boltann í kvöld. 

Fyrir andann í Fjölnishópnum var stigið í kvöld örugglega mjög gott og gæti gefið mönnum kraft fyrir framhaldið.

Náðu ekki að skipta um gír

Víkingum er spáð góðu gengi í sumar sem er skiljanlegt. Í liðinu er fínt jafnvægi á milli reyndra manna og yngri hæfileikaríkra leikmanna. En liðið náði sér ekki almennilega á strik í kvöld. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, hrósaði Fjölnismönnum fyrir þeirra frammistöðu. Víkingum gekk illa að opna vörn gestanna. 

Víkingsliðið á vafalaust mikið inni. Litlar hraðabreytingar voru í leik liðsins og sköpunargáfan var ekki til staðar til að skapa fleiri marktækifæri. Liðið fékk á sig mark eftir hálfgert klafs og það fer líklega í taugarnar á mönnum. Víkingar virðast þurfa fleiri leikinn til að spila sig saman fyrir alvöru. 

Ekki er ósennilegt að einhver værukærð hafi gripið um sig hjá Víkingum þegar liðið náði forystunni á 16. mínútu. Menn hafa kannski haldið innst inni að nýliðarnir myndu brotna við að lenda undir. 

Víkingar virtust í fyrri hálfleik ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að Fjölnir myndi skora. Það breyttist fyrri hluta seinni hálfleiks. Eftir að Fjölnir jafnaði þá náðu Víkingar ekki að skipta um gír og sækja þrjú stig. Óttar var hættulegur og Hlynur átti ágæta spretti en fleiri hefðu þurft að skapa vandræði fyrir varnarmenn Fjölnis. 

Miklar tafir urðu á leiknum og það setti svip á leikinn. Fyrir vikið var bætt við níu mínútum sem gerist nú ekki á hverjum degi. 

Víkingur R. 1:1 Fjölnir opna loka
90. mín. Uppbótartími er að minnsta kosti 9 mínútur. Ekki oft sem maður sér það.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert