„Með 20 aukakíló í rassgatinu“

Óttar Magnús Karlsson fagnar með félögum sínum eftir að hafa …
Óttar Magnús Karlsson fagnar með félögum sínum eftir að hafa komið Víkingum yfir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði í samtali við mbl.is að jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða þegar Víkingur og Fjölnir gerðu 1:1 jafntefli í 1. umferð Pepsí Max-deildarinnar í kvöld. 

„Nei eiginlega ekki. Fyrir leikinn hefði maður viljað sigur en miðað við hvernig leikurinn þróaðist er ég bara nokkuð sáttur við stigið. Fjölnismenn voru gríðarlega öflugir og sterkir en við aftur á móti með 20 aukakíló í rassgatinu á okkur. Þetta var leikur sem við hefðum hæglega getað tapað. Það gekk einhvern veginn allt á afturfótunum og einbeitingin var ekki til staðar,“ sagði Arnar þegar hann var spurður hvort hann væri svekktur yfir niðurstöðunni. 

Þegar hann talar um aukakíló er þjálfarinn ekki að vísa í fitumælingar á leikmönnum heldur tók hann svo til orða vegna þess að menn virkuðu þungir á sér. „Menn koma einfaldlega misvel undan þessu ævintýralega undirbúningstímabili. Sumir eru mjög léttir á sér en aðrir eru bara þyngri. Það mun taka aðeins lengri tíma fyrir nokkra til að slípa sig til og komast í gang. Það sást að það vantaði takt í okkar leik. Við létum andstæðingana fara í taugarnar á okkur. Það voru miklar tafir í leiknum og flæðið varð ekki nægilega gott af okkar hálfu. Við náðum ekki að keyra upp hraðann og menn voru þungir.“

Arnar hefur lengi verið viðloðandi Íslandsmótið. Fyrst sem toppleikmaður og síðar aðstoðarþjálfari eða þjálfari. Nú var enn lengri bið eftir Íslandsmótinu en vanalega. Hvað segir hann um áhrif þess á andlegu hliðina. Skapar þetta enn meiri spennu en vanalega? 

„Kárlega. Ég held að þetta sé vel orðað hjá þér. Spennan og eftirvæntingin er mikil. Oft þegar það gerist þá verða menn yfirspenntir. Við slíkar aðstæður geta menn misst hausinn og farið að gera hluti sem þeir eru ekki vanir að gera mánuðina á undan. En ég ætla ekki að vera með neinar afsakanir. Fjölnismenn voru góðir en við lélegir. Þeir gáfu okkur góðan leik. Þegar upp var staðið held ég að jafnteflið hafi verið sanngjörn niðurstaða. En mikið óskaplega vorum við samt ólíkir sjálfum okkur,“ sagði Arnar enn fremur. 

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert