Kiknum í hnjánum

Guðmundur Karl Guðmundsson í leik gegn Víkingum í fyrstu umferð …
Guðmundur Karl Guðmundsson í leik gegn Víkingum í fyrstu umferð deildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var virkilega svekkjandi að fá ekkert út úr leiknum,“ sagði Guðmundur Karl Guðmundsson, leikmaður  Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Fylki í 4. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Extra-vellinum í Grafarvogi í dag.

Daninn Christian Sivebæk sem skoraði eina mark Grafarvogsliðsins í dag en það voru þeir Valdimar Þór Ingimundarson og Hákon Ingi Jónsson sem skoruðu mörk Árbæinga.

„Mér fannst við vera með yfirhöndina, stóran hluta leiksins, en annað markið þeirra var þungt högg í andlitið á okkur og eftir það var þetta ákveðin brekka. Að sama skapi þá fannst mér við byrja leikinn mjög vel og við vorum í raun bara sjálfum okkur verstir að setja mark á þá snemma og komast yfir í leiknum.

Við eigum ennþá eftir að komast yfir í sumar og það er líka ákveðið reynsluleysi. Heilt yfir þá erum við einfaldlega að gefa allt of ódýr mörk, í öllum leikjunum sem við höfum spilað í sumar, og lið í efstu deild refsa fyrir svoleiðis mistök. Á meðan við erum ekki að refsa fyrir mistök andstæðinga okkar þá verður þetta alltaf dýrt.“

Fjölnismenn voru sterkari aðilinn í Grafarvoginum í dag, allt þangað til að þeir lentu undir á 29. mínútu þegar Fylkismenn komust yfir með marki úr vítaspyrnu.

„Mér finnst ákveðinn stígandi í liðinu og þetta er að skána. Samt sér maður það alveg, þegar að við fáum á okkur mörk, að það vantar aðeins að setja bara kassann aðeins út, hökuna upp og halda áfram. Við erum að kikna of auðveldlega í hnjánum og verðum oft litlir í okkur en vonandi getum við lagað þessa hluti og sótt þrjú stig í næsta leik á miðvikudaginn.“

Fjölnismenn hafa fengið á sig nokkur klaufamörk í sumar og það er eitthvað sem liðið verður að laga.

„Það er ekki verið að sundurspila okkur á vellinum. Við erum að fá á okkur mörk úr föstum leikatriðum og eftir einstaklingsmistök. Það er stundum samskiptaleysi í liðinu og það á að vera hægt að koma í veg fyrir þessi mörk, við þurfum bara að fara hætta tala um það og sýna það í verki,“ bætti Guðmundur Karl við í samtali við mbl.is.

mbl.is