Valur pakkaði í vörn

Úr leik Vals og Fylkis á Hlíðarenda í kvöld.
Úr leik Vals og Fylkis á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ef ég á að vera hreinskilin þá er ég ekki sátt, við erum einum fleiri allan leikinn og áttum að taka þetta,“ sagði Sólveig Jóhannesdóttir Larsen, markaskorari Fylkis í 1:1-jafntefli gegn Íslandsmeisturum Vals í 6. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Valsarar fengu rautt spjald strax á fyrstu mínútu leiksins og Sólveig kom gestunum úr Árbænum svo í forystu áður en að Elín Metta Jensen jafnaði metin og þannig enduðu leikar. Sólveig hrósaði Völsurum fyrir agaðan varnarleik en segir Fylkiskonur hafa átt að gera betur.

„Valur er mjög gott varnarlið og þær bara pökkuðu í vörninni, voru þéttar og það er erfitt að sækja á þannig lið. Vel gert hjá þeim en við hefðum mátt finna betri sendingar á milli þeirra. Við vorum að reyna of marga langa bolta sem ekkert kom út úr.“

Fylkir hefur farið vel af stað á mótinu og er taplaust eftir fjóra leiki. Það fór nokkuð lítið fyrir Árbæingum í umræðunni um sterkustu liðin fyrir mót og segir Sólveig það vera fínt, enda vilji Fylkiskonur láta verkin tala. „Við erum að sýna að Fylkir er eitt af þessum stóru liðum. Við vorum ekkert að kalla eftir athygli, við bara látum verkin tala.“

Sólveig Jóhannesdóttir Larsen eltir hér Hólmfríði Magnúsdóttur í leik gegn …
Sólveig Jóhannesdóttir Larsen eltir hér Hólmfríði Magnúsdóttur í leik gegn Selfoss. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert