Ungu stelpurnar fullar af sjálfstrausti

Jón Þór Hauksson og Sara Björk Gunnarsdóttir á blaðamannafundi íslenska …
Jón Þór Hauksson og Sara Björk Gunnarsdóttir á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í morgun. mbl.is/Eggert

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, er ánægð með það hvernig ungu stelpurnar í landsliðinu hafa komið inn í hópinn.

Ísland mætir Lettlandi í undankeppni EM á morgun á Laugardalsvelli klukkan 18:45 en Ísland er með 9 stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína í riðlakeppninni.

„Ungu stelpurnar líta vel út,“ sagði Sara Björk á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.

„Þær eru búnar að standa sig vel hérna heima í deildinni og ég tek undir með landsliðsþjálfaranum, hópurinn lítur ótrúlega vel út.

Það er alltaf gaman að sjá svona ungar stelpur koma inn. Þær eru fullar af sjálfstrausti og vilja spila sem er frábært.

Ég er ótrúlega spennt að sjá þær á morgun og það er virkilega jákvætt að fá þær inn því við þurfum á þeim að halda,“ bætti landsliðsfyrirliðinn við.

Sveindís Jane Jónsdóttir er nýliði í íslenska liðinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir er nýliði í íslenska liðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is