Allir leikmenn klárir í slaginn

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska landsliðsins, á blaðamannafundi í Laugardalnum …
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska landsliðsins, á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eggert

Allir leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eru heilir heilsu og klárir í slaginn en þetta staðfesti Jón Þór Hauksson, þjálfari liðsins, á blaðamannafundi landsliðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Ísland mætir Lettlandi á Laugardalsvelli á morgun í undankeppni EM klukkan 18:45 en íslenska liðið er með 9 stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sína í riðlinum, jafn mörg stig og Svíþjóð.

Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður Selfoss, var ekki með Selfyssingum í 5:0-sigri liðsins gegn KR í úrvalsdeildinni í Vesturbæ um um síðustu helgi en hún er klár í slaginn gegn Lettum á morgun.

„Dagný æfir með okkur í dag og hún æfði líka í gær,“ sagði Jón Þór á fundinum.

„Það eru allir leikmenn heilir og í toppstandi sem er gríðarlega jákvætt fyrir okkur í þjálfarateyminu.

Það er mikil orka í hópnum og andinn hefur verið algjörlega frábær. Ég er gríðarlega ánægður með síðustu daga og stöðuna á öllum hópnum í heild sinni, bæði líkamlega og andlega,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is