Nú þurfum við ekkert að æfa

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði mark KR á Selfossi.
Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði mark KR á Selfossi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var bara jafn og skemmtilegur leikur. Við ætluðum að ná í þrjú stig hérna í dag en því miður tóku Selfyssingarnir þau,“ sagði Guðmunda Brynja Óladóttir, markaskorari KR, eftir 2:1 tap á útivelli gegn sínu gamla liði, Selfossi, í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu.

„Við erum á botninum og þurfum að mæta brjálaðar í alla leiki. Mér fannst við spila flottan fótbolta í dag og þetta er eitthvað sem við getum byggt á fyrir næsta leik sem er á móti Þrótti á sunnudaginn,“ bætti Guðmunda við.

KR á mjög þétta leikjadagskrá framundan og má segja að allir leikir liðsins séu úrslitaleikir. Guðmundu líst vel á framhaldið.

„Þetta leggst vel í mig. Það er lang skemmtilegast að spila þessa mikilvægu leiki, við erum í þessu til að spila fótbolta og nú þurfum við ekkert að æfa. Það er bara leikur og endurheimt og það er bara mjög kósý,“ sagði Guðmunda hlæjandi.

En hvernig var tilfinningin að skora gegn sínu gamla liði á Selfossvelli?

„Það var súrsætt. Ég er búin að vera í meiðslum í níu mánuði og þetta voru fyrstu 90 mínúturnar mínar síðan í september í fyrra og ég hef ekki skorað í eitt ár. Þannig að þetta gladdi mig og gefur mér sjálfstraust upp á framhaldið, sem er gott, en það er líka sérstakt að skora á móti Selfoss. Ef markið hefði haft áhrif þá hefði það verið sætt en því miður þá skipti það ekki máli fyrir úrslit leiksins,“ sagði Guðmunda að lokum.

mbl.is