ÍBV rifti óvænt samningi við Víði

Víðir Þorvarðarson í leik með Eyjamönnum í sumar.
Víðir Þorvarðarson í leik með Eyjamönnum í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV hefur rift samningi sínum við knattspyrnumanninn Víði Þorvarðarson en hann greindi sjálfur frá þessu á facebooksíðu sinni í gærkvöldi.

Víðir, sem er 28 ára gamall, er uppalinn hjá ÍBV en hann hefur leikið með KFS, Stjörnunni, ÍBV, Þrótti úr Reykjavík og Fylki á sínum ferli.

Hann á að baki 140 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 22 mörk en hann lék 19 af 20 leikjum ÍBV í 1. deildinni í ár. Liðið var í sjötta sæti 1. deildarinnar, Lengjudeildarinnar, þegar mótið var blásið af í gær vegna kórónuveirufaraldursins.

Víðir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir ákvörðun stjórnar ÍBV um að rifta samningi hans en hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

Það var erfitt að slíta sig frá bandalaginu svo ég kom aftur til Eyja og fórnaði námi og atvinnu fyrir félagið,“ sagði Víðir meðal annars í færslu sinni á Facebook.

„Þegar liðið féll var ég staðráðinn í að gera allt til að koma liðinu aftur á þann stað sem það á heima. Eftir vonbrigðasumar sem var að líða hvarflaði ekki að mér að breyta því markmiði. Í dag var ég hins vegar kallaður á fund þar sem mér var tjáð að ákveðið hefur verið að segja upp samningi mínum þar sem stjórnarmenn og þjálfarar telja sig ekki hafa not fyrir krafta mína.

Þessar fréttir komu mér á óvart og voru mér þyngri en tárum taki. Ég mun því vera partur af upprisu félagsins sem stuðningsmaður en ekki leikmaður. Þetta þýðir að skórnir eru farnir upp í hillu því eins og staðan er vil ég ekki spila fyrir annað félag en ÍBV,“ segir í tilkynningu Víðis.

mbl.is