Þetta var ofboðslegur rússíbani

Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson Eggert Jóhannesson

Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu var að vonum ánægður með 3:1 endurkomusigur í F-riðli undankeppni EM gegn Slóvakíu ytra í kvöld.

„Þetta var ofboðslegur rússíbani. Þetta voru tveir gjörólíkir hálfleikar, ekki bara hvað spilamennsku varðar heldur líka hugarfar og stemningin var ekki í lagi í fyrri hálfleik. Spilið var var ofboðslega flatt og við vorum flatar andlega. En seinni hálfleikur var auðvitað alveg frábær. Þrjú mjög góð mörk og margar góðar sóknir en fyrst og fremst  gríðarlegur karakter. Ég held að það sé óhætt að segja að þetta hafi verið karakterssigur,“ sagði Jón Þór eftir leik.

Ísland var 0:1 undir í hálfleik og frammistaðan döpur. Hverju breytti liðið í hálfleik?

„Fyrstu skilaboðin til leikmanna voru þau að núllstilla allt spennustig og að gera leikmönnum grein fyrir því að við yrðum að taka þátt í baráttunni ef við ætluðum að ná að taka boltann niður og láta hann ganga. Við töpuðum öllum seinni boltum og vorum langt frá mönnunum okkar í fyrri hálfleik og náðum ekki upp neinni stemningu í liðinu. Þannig að það var fyrst og fremst að núllstilla það til þess að fá gæði fram á við. Það tókst sem betur fer. Við komum inn í seinni hálfleikinn af miklum krafti og kláruðum leikinn frábærlega í seinni hálfleik,“ sagði hann.

Aðspurður hvort hann kynni einhverja skýringu á því af hverju hálfleikarnir tveir hafi verið svona ólíkir sagði Jón Þór: „Nei í sjálfu sér ekki. Ekki annað en það að við byrjum leikinn og erum undir í baráttunni.Við erum ekki að gera þá hluti sem við ætluðum okkur að gera og þ.a.l. náðum við miklum yfirtökum á miðjunni strax og vorum í basli með það.

Við vorum svolítið slegnar út af laginu í upphafi leiks og við náðum aldrei að koma okkur inn í leikinn í fyrri hálfleik. Svo endaði það með því að Slóvakarnir komust yfir. Þannig að það er fyrst og fremst það að við vorum undir í baráttunni og það sló okkur út af laginu. Við erum ekki vanar því og við þurfum á því að halda að þeir hlutir séu í lagi. Við erum með mjög gott lið en ef baráttan er ekki til staðar og við erum ekki að gera hlutina saman og fyrir hvora aðra þá erum við bara lélegt lið.“

Jón Þór ákvað að treysta byrjunarliðinu til þess að gera þær breytingar sem þurfti í hálfleik. „Það þurfti fyrst og fremst að breyta þessum hlutum áður en við gátum farið að setja aðra leikmenn inn á. Þeim hefði ekki verið gerður neinn greiði með því að koma inn á því ef þessir hlutir batna ekki þá hefurðu ekkert inn á í leikinn að gera.

Við þurftum fyrst og fremst að breyta þessum hlutum til að snúa þessu við, það var alveg klárt mál. Ég vildi gefa leikmönnunum sem voru inn á tækifæri til þess, og þær svöruðu kallinu svo sannarlega,“ sagði hann að lokum.

mbl.is