Enginn býður sig fram gegn Guðna

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir að Guðni Bergsson verði áfram formaður Knattspyrnusambands Íslands til næstu tveggja ára en ársþing KSÍ fer fram 27. febrúar.

Ekki er vitað til þess að mótframboð gegn Guðna hafi borist en Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, tjáði Vísi það í morgun. „Við höfum ekki séð slíkt ennþá, en við erum að fara yfir alla okkar samskiptamiðla til að ganga úr skugga um að það leynist ekki eitthvað þar,“ sagði Klara.

Guðni hefur verið formaður sambandsins síðan 2017 þegar hann hafði betur gegn Birni Einarssyni í kjörinu og tveimur árum síðar var hann endurkjörinn eftir að hafa fengið mótframboð frá forvera sínum Geir Þorsteinssyni.

Þá lýkur tveggja ára kjörtímabili fjögurra stjórnarmanna KSÍ sem allir gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Um er að ræða Ásgeir Ásgeirsson, Borghildi Sigurðardóttur, Magnús Gylfason og Þorstein Gunnarsson.

mbl.is