„Blikar geta ekki orðið Íslandsmeistarar“

Blikarnir Höskuldur Gunnlaugsson og Kristinn Steindórsson í baráttunni á Kópavogsvelli …
Blikarnir Höskuldur Gunnlaugsson og Kristinn Steindórsson í baráttunni á Kópavogsvelli í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi leikur sýndi mér að Blikar geta ekki orðið Íslandsmeistarar en KR geta hins vegar orðið Íslandsmeistarar,“ sagði Arnar Sveinn Geirsson, fyrrverandi leikmaður Breiðabliks, í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag.

Breiðablik, sem spáð var Íslandsmeistaratitlinum í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni, tapaði 2:0-gegn KR á Kópavogsvelli í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar, Pepsi Max-deildarinnar, í gær.

„Það getur vel verið að ég sé að kveikja í mínum gömlu liðsfélögum með þessum ummælum en ég held bara að þeir verði ekki Íslandsmeistarar,“ sagði Arnar.

Arnar var spurður að því í þættinum hvernig hann myndi stilla upp liðinu ef hann væri þjálfari.

„Ég veit ekki hverju ég myndi breyta endilega en ég hefði bara aldrei farið í þær breytingar sem farið var í til að byrja með,“ sagði Arnar.

„Það var strax farið í að umturna öllu sem var búið að vera að gera og þess þurfti ekki að mínu mati. Félagið var á góðum stað en það þurfti auðvitað að skerpa á ákveðnum hlutum tengt æfingum og menningunni í kringum þær.

Eins hvernig hlutirnir eru lagðir upp svo að liðið verði meistari og Óskar [Hrafn Þorvaldsson] kemur með það en hann kemur með fullt af öðrum breytingum líka,“ sagði Arnar meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert