Fallegt sigurmark Mikaels í Þórshöfn

Valgeir Lunddal Friðriksson lék sinn fyrsta A-landsleik í kvöld og …
Valgeir Lunddal Friðriksson lék sinn fyrsta A-landsleik í kvöld og á hér í höggi við Hall Hansen, fyrirliða Færeyinga. Ljósmynd/Heri Joensen

Mikael Anderson tryggði Íslandi sigur á Færeyjum, 1:0, í vináttulandsleik karla í knattspyrnu á Tórsvellinum í Þórshöfn í kvöld með sínu fyrsta marki fyrir A-landslið Íslands.

Færeyingar byrjuðu leikinn mun betur og voru aðgangsharðir fyrstu 20 mínútur leiksins. Ögmundur Kristinsson varði vel hörkuskot frá Brandi Olsen strax á 4. mínútu og Odmar Færö skallaði rétt yfir mark Íslands eftir hornspyrnu.

Ísland fékk dauðafæri á 21. mínútu þegar færeyska vörnin opnaðist illilega hægra megin. Birkir Bjarnason stakk sér inn í vítateiginn hægra megin og sendi fyrir markið, Kolbeinn Sigþórsson var einn gegn Teiti Gestssyni markverði og átti fast skot en beint í Teit.

Færeyingar voru sterkari aðilinn í heildina í fyrri hálfleiknum en staðan að honum loknum var 0:0.

Mikael Anderson skoraði sigurmark Íslands í kvöld.
Mikael Anderson skoraði sigurmark Íslands í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mest lítið var um færi lengi vel í seinni hálfleik. Færeyingar voru meira með boltann en ógnuðu lítið. Ísland náði hins vegar forystunni á 70. mínútu með skemmtilegri sókn þar sem Mikael Anderson skoraði með fallegu skoti frá vítateig eftir sendingu Birkis Bjarnasonar á Albert Guðmundsson sem skallaði boltann fyrir fætur Mikaels.

Færeyingar sóttu mjög á lokakafla leiksins og fengu dauðafæri á 85. mínútu þegar Ögmundur varði frá Klæmint Olsen á markteig. Í uppbótartímanum komu Færeyingar boltanum í markið eftir að Ögmundur varði hörkuskot frá Halli Hanssyni en þeir voru dæmdir brotlegir og markið stóð ekki.

Íslenska liðið var reynslulítið á lokakafla leiksins þegar Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason, Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson voru allir farnir af velli en náði að standa af sér pressu færeyska liðsins og halda fengnum hlut.

Færeyjar 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Ísland vinnur nauman 1:0 sigur eftir erfiðan lokakafla.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert