„Við eigum séns í öll lið“

Laufey Harpa Halldórsdóttir, leikmaður Tindastóls.
Laufey Harpa Halldórsdóttir, leikmaður Tindastóls. Eggert Jóhannesson

Laufey Harpa Halldórsdóttir, leikmaður Tindastóls, sagði liðið ekki hafa náð að sýna sínar bestu hliðar í 1:2 tapinu gegn Fylki í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þá hafi Murielle Tiernan, framherja Tindastóls, verið sárt saknað í leiknum.

„Mér fannst við ekki ná að gera það sem við ætluðum í fyrri hálfleik. Við vorum ekki að ná að spila okkar leik, náðum ekki upp spilinu okkar. Við komum í seinni hálfleik og spegluðum fyrri hálfleik, spiluðum alveg eins þar en mér fannst þó ganga aðeins betur.

Það var blautur völlur og við vorum ekki að finna svæðin sem við vildum. Við ætluðum að reyna að finna svæðin á bakvið vörnina en það vantaði alltaf smá upp á,“ sagði Laufey Harpa í samtali við mbl.is eftir leik.

Hún bætti því við að liðið hafi saknað lykilmanns síns í leiknum, sem sat allan tímann meidd á varamannabekknum í kvöld.

„Það er alltaf mikill missir að vera ekki með framherjann okkar, Murielle, sem meiddist í síðasta leik.“

Mark Tindastóls kom seint í leik kvöldsins, á 88. mínútu, þegar Hugrún Pálsdóttir minnkaði muninn. Var það of seint?

„Já veistu það var eiginlega of seint. Það er alltaf séns en það hefði verið fínt að fá það fyrr svo við hefðum haft aðeins meiri tíma, því við hefðum alveg getað jafnað. Við vorum mjög kraftmiklar síðustu mínúturnar,“ sagði Laufey Harpa.

Hún sagði að leikmenn Tindastóls láti engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að verma nú botnsætið, enda geti Stólarnir staðið í öllum liðum deildarinnar.

„Já við eigum séns í öll lið, sem við höfum sýnt. Við erum sterk liðsheild og getum tekið öll lið,“ sagði Laufey Harpa að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is