Eigum að gera það sem gengur vel, ekki reyna neitt annað

Logi Ólafsson
Logi Ólafsson Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Við byrjum þennan leik mjög vel, sköpum okkur að minnsta kosti eitt dauðafæri,“  sagði  Logi Ólafsson annar af þjálfurum FH eftir 2:0 tap fyrir Víkingum í Fossvoginum í dag þegar liðin mættust í 8. umferð Íslandsmótsins í fótbolta, efstu deild, Pepsi Max deildinni, en þetta var þriðja tap FH í röð.

FH byrjaði leikinn af miklum krafti.  „Þá vorum við að gera hlutina vel, skiptum boltanum hratt og langt á milli kanta, sem skapaði opnanir en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hættum við því og við verðum að huga að því gera það sem gengur vel, vera ekki að reyna neitt annað.  Ástæðuna fyrir því hefur maður ekki á hraðbergi.  Við vorum kannski eitthvað ryðgaðir, langt síðan við spiluðum en það er svo sem ekki nein afsökun. Svo þarf að átta sig á því að það er mótherjar inni á vellinum sem kunna líka fótbolta og eru góðir, enda engin tilviljun að þeir eru með þennan stigafjölda,“ sagði Logi. 

„Þeir náðu að pressa og loka á okkur, við vorum ekki nógu snöggir að bregðast við því.  Að vísu fannst mér við í seinni hálfleik hafa ágætis tök á leiknum og sköpum færi en þegar þú ert að eltast við að skora mark máttu búast við að fá eitt í andlitið á móti.  Það gerðist í stað þess að við jöfnum leikinn.   Við vorum á ágætu róli í upphafi móts og taktur ágætur í liðinu en töpum svo fyrir KR og svo Leikni og nú Víking svo leiðin hlýtur að liggja upp á við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert