Get ekki svarað hvort þetta var rétt eða rangt

Helgi Valur Daníelsson í baráttunni í Árbænum í kvöld.
Helgi Valur Daníelsson í baráttunni í Árbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru gríðarlega svekkjandi úrslit enda fáum við fullt af færum til þess að gera út um leikinn,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfara Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap liðsins gegn HK í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld.

„Þeir bjarga tvisvar á línu og við fengum fullt af mjög álitlegum upphlaupum þar sem við eigum að gera miklu betur. Á sama tíma börðust HK-ingarnir mjög vel og ég óska þeim til hamingju með sigurinn en ég hefði viljað sjá okkur verjast mun betur í mörkunum sem við fáum á okkur.

Daði skoraði frábært mark sem er jákvætt og við sköpum okkur líka fullt af færum í leiknum sem er líka jákvætt. Á sama tíma er HK lið sem er að berjast fyrir lífi sínu og svona fór þetta í dag. Það þýðir ekki að dvelja of lengi við það og núna er það bara næsti leikur á þriðjudaginn gegn KA,“ sagði Atli.

Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfari Fylkis.
Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfari Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðan sem við erum í

Fylkismenn eru með 11 stig eftir ellefu leiki í níunda sæti deildarinnar, tveimur stigum frá fallsæti.

„Við erum búnir að gera mikið af jafnteflum í sumar og þetta er staðan sem við erum í. Það þýðir ekki að spá of mikið í það sem gerðist í maí og júní.

Við erum með lið sem getur gefið öllum leik og eins þá getum við líka tapað fyrir öllum liðum deildarinnar.

Þetta féll ekki með okkur í dag, sem er svekkjandi, en á sama tíma tel ég okkur hafa spilað nægilega vel til þess að vinna leikinn.“

Daða Ólafssyni, einum besta leikmanni Fylkis, var skipt af velli á 65. mínútu en skiptingin vakti undrun margra.

„Daði er búinn að vera tæpur aftan í læri og þetta voru líka ákveðnar ráðstafnir vegna leiksins á þriðjudaginn að taka hann af velli. Var það rétt eða rangt, ég bara veit það ekki, en við þurfum alla vega heila og fríska leikmenn þá.“

Voruð þið þá farnir að hugsa um leikinn gegn KA um miðjan seinni hálfleikinn?

„Ég vildi bara ekki missa Daða í meiðsli og það var í raun það eina sem vð vorum að hugsa um,“ sagði Atli Sveinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert