Góð ákvörðun að taka mig af velli

Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í leiknum í kvöld.
Jón Dagur Þorsteinsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

„Við komum inn í þennan leik til þess að vinna hann og við erum svekktir,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við RÚV eftir 1:1-jafntefli Íslands gegn Armeníu í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í kvöld.

„Mér fannst við fá tækifæri til að fá skora fleiri mörk og ná þessu seinna marki. Við jöfnum metin þegar það var korter eftir og hefðum getað skapað okkur talsvert meira undir restina þegar að það var komið smá stress í þá.

Ég var búinn að hlaupa frekar mikið og það var góð ákvörðun að skipta mér af velli og fá ferskar lappir inn í þetta. Það fór mikið bensín í leikinn og það var ekkert svekkelsi að þurfa fara af velli,“ sagði Jón Dagur.

Ísland er með 5 stig í fimmta og næst neðsta sæti riðilsins en liðið er að ganga í gegnum mikla endurnýjun þessa dagana.

„Þetta er mjög skemmtilegur hópur og auðvitað nýtt lið. Við erum ekki búnir að spila marga leiki saman en við erum að taka rétt skref fram á við.

Frammistaðan í kvöld var heilt yfir ágæt þó við hefðum hæglega getað gert marga hluti betur en vonandi fara úrslitin að detta með okkur,“ bætti Jón Dagur við.

mbl.is