Getum unnið til verðlauna á EM

Glódís Perla Viggósdóttir er bjartsýn fyrir komandi Evrópumeistaramót.
Glódís Perla Viggósdóttir er bjartsýn fyrir komandi Evrópumeistaramót. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu getur unnið til verðlauna á lokamóti EM 2022 sem fram fer á Englandi næsta sumar að mati Glódísar Perlu Viggósdóttur, varnarmanns liðsins og Bayern München í Þýskalandi.

Ísland leikur í D-riðli keppninnar næsta sumar ásamt Frakklandi, Ítalíu og Belgíu og var liðið nokkuð heppið með drátt þegar dregið var í riðla í Manchester á Englandi í lok október.

„Við erum öðruvísi lið núna en oft áður,“ sagði Glódís Perla á fjarfundi með blaðamönnum í dag þegar hún var spurð hvort landsliðið í dag væri það besta sem hún hefði spilað með.

„Akkúrat núna erum við með mikið af tæknilega góðum leikmönnum í bland við mikla baráttu, hlaupagetu og varnarleik sem hefur einkennt okkur undanfarin ár. Við höfum náð að blanda því saman og útkoman er mjög góð. Ég er ótrúlega spennt fyrir því hvað liðið getur gert og við erum á góðri leið og  vegferð auðvitað,“ sagði Glódís.

Getur liðið unnið til verðlauna á komandi Evrópumeistaramóti?

„Já ég ætla að segja það. Við erum ekki þær líklegustu en ef við höldum áfram á þessari vegferð og heppnin er með okkur í liði þá er allt hægt.

Hópurinn er mjög hungraður í að gera betur en í Hollandi og að komast upp úr riðlinum er okkar fyrsta markmið,“ sagði Glódís Perla meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert