Erfitt að spila á tíu mönnum gegn meisturunum

Gonzalo Zamorano, leikmaður Selfoss, með boltann í leiknum í kvöld.
Gonzalo Zamorano, leikmaður Selfoss, með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er stoltur af liðinu. Við unnum vel, í stöðunni 2:0 eru menn að hlaupa og gefa allt sitt í leikinn en vítið og rauða spjaldið var vendipunkturinn,“ sagði Dean Martin, þjálfari Selfoss, eftir 6:0 tap í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu, gegn bikarmeisturum Víkings R. á Selfossi í kvöld.

„Ég var ekki nógu ánægður með fyrstu tvö mörkin hjá Víkingum, þetta voru ekki frábær mörk, bara ekki nógu góð vörn hjá okkur. Þeir komust yfir snemma en á móti svona liði þá vilt þú halda núllinu í svona 20, 25 mínútur til þess að komast inn í leikinn. Það var planið hjá okkur til þess að ná að þroskast inn í leikinn,“ bætti Dean við.

Á 54. mínútu fengu Víkingar víti og Aron Darri Auðunsson, leikmaður Selfoss, rautt spjald. Víkingur komst í 3:0 úr vítaspyrnunni og Selfyssingar áttu enga von eftir það. Dean fannst dómurinn harður.

„Að fá víti og rautt spjald... það er nógu erfitt að spila á móti Víkingum með ellefu menn en þegar við vorum orðnir tíu þá misstum við stjórnina á okkar leik. Ég get ekki dæmt um þetta atvik þaðan sem ég stóð. Mér fannst vítið harður dómur og rauða spjaldið ennþá harðara en ég er ekki í góðri stöðu að meta þetta við varamannaskýlin.“

Selfoss er á toppi Lengjudeildarinnar og þó að þeir hafi ekki getað stillt upp sínu sterkasta liði í kvöld var munurinn á liðunum mikill. Stökkið er væntanlega stórt á milli deilda. 

„Það gefur okkur mikið að fá að spila við Íslands- og bikarmeistarana en það hefði gefið okkur meira ef við hefðum náð að klára leikinn með ellefu menn. Þá sjáum við hvar við erum staddir og hvað við þurfum að gera til þess að komast á næsta „level“. Það er allt of erfitt að spila á tíu mönnum á móti svona liði.

Það eru mikil gæði og breidd hjá Víkingum og allir varamennirnir sem komu inná hefðu allir getað verið byrjunarliðsmenn og eru búnir að spila leik í Meistaradeildinni. En við undirbjuggum okkur eins fyrir þennan leik og alla aðra leiki. Þú átt alltaf möguleika en þegar þú ert með ellefu menn inná þá eru möguleikarnir miklu meiri,“ sagði Dean að lokum.

mbl.is