Íslandsmeistarinn til Danmerkur

Málfríður Anna Eiríksdóttir í leik með Val.
Málfríður Anna Eiríksdóttir í leik með Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Málfríður Anna Eiríksdóttir hefur fengið félagaskipti til danska félagsins B.93 frá Íslandsmeisturum Vals.

„Ég verð úti í Danmörku í námi í vetur og er líklegast á leiðinni í lið sem heitir B 93 og er í 1. deild,“ sagði Málfríður Anna í samtali við mbl.is.

Varnarmaðurinn telur líklegt að hún snúi aftur til uppeldisfélagsins í sumar.

„Það er mjög sennilegt að ég verði eitthvað með Val í sumar. Ég er ekki búin að skrifa undir samning þannig að ég mun geta skipt aftur í sumar,“ útskýrði Málfríður Anna.

B 93 er í Kaupmannahöfn og er sem stendur í níunda sæti af tólf liðum í dönsku B-deildinni.

Málfríður Anna var fyrirliði Vals í sex síðustu leikjum Íslandsmótsins 2023 og spilaði 20 af 23 leikjum liðsins í deildinni. Hún á að baki 123 leiki með Val í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka