Staðan á Sveindísi góð

Sveindís Jane Jónsdóttir á fleygiferð í leik með íslenska landsliðinu …
Sveindís Jane Jónsdóttir á fleygiferð í leik með íslenska landsliðinu gegn því pólska í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Staðan á henni er heilt yfir góð. Hún er farin að spila fleiri og fleiri mínútur hjá Wolfsburg og lítur bara vel út,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, um Sveindísi Jane Jónsdóttur á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Sveindís Jane reif tvö liðbönd í öxl í leik með landsliðinu gegn því þýska í Aachen í síðasta mánuði en var fljót að jafna sig og hefur spilað í síðustu leikjum Wolfsburg.

„Það virðist vera að þetta hái henni mjög lítið, þessi meiðsli sem hún lenti í um daginn. Hún virðist vera búin að ná sér af þeim eins vel og hægt er á þessum tímapunkti,“ bætti Þorsteinn við.

Toppkarakter sem gefur okkur mikið

Markvörðurinn öflugi Cecilía Rán Rúnarsdóttir snýr aftur í leikmannahópinn eftir langa fjarveru vegna alvarlegra hnémeiðsla. Hún hefur ekkert spilað á tímabilinu en hóf nýverið æfingar með Bayern München og er að koma sér af stað á ný.

„Auðvitað veljum við leikmann eins og Cessu líka að hluta til vegna þess að hún er toppeintak og toppkarakter fyrir hópinn sem gefur okkur mikið.

Það er vonandi að hún fari að spila reglulega og gera hluti á næstunni sem hjálpa henni að gera meira tilkall til þess að fara að spila hjá okkur,“ sagði Þorsteinn um valið á Cecilíu Rán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka