„Við erum orðnir enn gráðugri“

Dagur Sigurðsson fylgist ákafur með á hliðarlínunni í sigurleik þýska ...
Dagur Sigurðsson fylgist ákafur með á hliðarlínunni í sigurleik þýska landsliðsins gegn Slóvenum á miðvikudagskvöld. JANEK SKARZYNSKI/AFP

„Við erum orðnir enn gráðugri,“ sagði Dagur Sigurðsson eftir sigur Þjóðverja á Slóvenum á Evrópumeistaramótinu í handbolta í Póllandi. „Við erum með ungt lið. Sjáum til hvernig eldri liðin fara að því að standast álagið.“

Tilvitnunin í Dag birtist á vefsíðu Der Spiegel upp úr miðnætti í dag og sagði að þjálfarinn hefði verið óvenju afslappaður. Síðan segir að hann hafi haft fulla ástæðu til. Leikmenn hans hafi sýnt það á vellinum, sem þjálfarinn á Íslandi hafi löngum haldið fram. Í lokaleiknum í riðlinum gegn Slóvenum hafi ekki aðeins komið fram þeir gríðarlegu hæfileikar, sem búi í liðinu, heldur andlegur styrkur. Lokatölur í leiknum voru 25-21.

Blaðið segir að lítil trú hafi verið á liðinu eftir að í ljós kom að burðarásar á borð við fyrirliðann Uwe Gensheimer, Patrick Groetzki og Patrick Wiencek yrðu ekki með. Aldrei hefðu Þjóðverjar sent jafn ungt lið með jafn litla reynslu til leiks í úrslitakeppni á Evrópumóti.

Liðið hefði hins vegar sýnt það í Breslau að þótt leikmennirnir ættu ekki marga landsleiki að baki væru þeir gríðarlega fljótir að læra. Frammistaðan gegn Slóvenum hefði verið sú besta í riðlinum, með sterkri vörn hefði liðið lyft sér upp á hærra plan og því fylgdi aukið sjálfstraust.

„Við eigum raunhæfan möguleika á að komast í undanúrslit,“ sagði Hendrik Pekeler, leikmaður Rhein-Neckar-Löwen, eftir úrslitin.

Veselin Vujovic, þjálfari Slóvena, hrósaði liðinu og þjálfaranum, sem tók við liðinu í september 2014. „Þýska liðið á framtíðina fyrir sér,“ sagði hann. „Í Degi hafa þeir frábæran þjálfara, ég hef fylgst með þróun liðsins um nokkurt skeið.“

„Ég er sammála honum, liðið er mjög, mjög spennandi,“ sagði Dagur þegar þessi ummæli Vujovic voru borin undir hann.

Í Der Spiegel segir að niðurröðun leikja vinni með Þjóðverjum. Á morgun, föstudag, leika þeir við Ungverja, á sunnudag við Rússa, síðan komi tveggja daga hlé fyrir viðureignina við Dani, sem gæti ráðið úrslitum um hvort Þjóðverjar komist áfram í fjögurra liða úrslit. Danir þurfi hins vegar að leika við Svía kvöldið áður. Dagur gæti hafa haft þetta í huga þegar hann talaði um aldur og álag í íþróttahöllinni í Breslau eftir leikinn við Slóvena.

Rune Dahmke skorar fyrir Þjóðverja gegn Slóvenum á EM í ...
Rune Dahmke skorar fyrir Þjóðverja gegn Slóvenum á EM í Póllandi. JANEK SKARZYNSKIAFP
mbl.is