„Verður gaman að koma heim“

Ólafur Guðmundsson sækir að vörn Svía.
Ólafur Guðmundsson sækir að vörn Svía. Ljósmynd/Gordan Lausic

Ólafur Guðmundsson var valinn maður leiksins gegn Svíum á EM af mótshöldurum. Sjálfur býr hann í Svíþjóð og leikur með sænsku meisturunum í Kristianstad. 

„Þetta var skemmtilegt fyrir mig, ég viðurkenni það alveg. Það verður gaman að koma heim eftir að hafa náð í góð úrslit gegn Svíum,“ sagði Ólafur en bætti við. „Aðalatriðið er að hugsa um mótið í heild sinni. Hvort sem við mætum Svíum eða einhverjum öðrum þá erum við í þessu til að ná árangri. Við þurfum að ná okkur niður eftir þennan leik og vera tilbúnir í þann næsta,“ sagði Ólafur en Ísland mætir firnasterku liði Króatíu á sunnudag.

Íslendingar völtuðu yfir Svía á fyrstu 40 mínútum leiksins og náðu mest tíu marka forskoti en Svíar söxuðu það niður í tvö mörk og Ísland vann 26:24. „Við mættum fullir af orku til leiks. Við náðum að koma þeim svolítið á óvart með frábærri vörn og frábærri markvörslu. Fyrir vikið skoruðum við auðveld mörk úr hröðum sóknum. Við gerðum þeim rosalega erfitt fyrir. Seinni hálfleikur var ekkert æðislegur af okkar hálfu en við gerðum nóg til að sigla þessu heim. Það er ekki auðvelt að vera yfir allan tímann og verja forskot. Það besta hefði verið að halda áfram að keyra upp hraðann en við vorum kannski orðnir lúnir. Undir lokin skoruðum við þó mikilvæg mörk. Janus kom sterkur inn og náði að sprengja sóknina aðeins upp.“

Ólafur er með stórt hlutverk í landsliðinu. Er öflugur varnarmaður og nýtist vel þar. Getur keyrt hratt fram í sókn og er fljótur að stilla sér upp í vörn. Auk þess virðist sjálfstraust Ólafs í sókninni hafa aukist mjög síðasta árið eða rúmlega það. „Mér finnst gaman að spila fyrir íslenska landsliðið og mér líður vel á vellinum enda er ég með skemmtilegt hlutverk. Ég held að það sjáist á okkur öllum að við erum stoltir. Landsliðsfólk er stolt af því að spila fyrir Ísland, hvort sem það er handbolti, fótbolti, karfa eða eitthvað annað. Það sást í dag að þetta skiptir okkur máli,“ sagði Ólafur Guðmundsson sem skoraði 7 mörk og var markahæstur.

Íslensku stuðningsmennirnir á leiknum gegn Svíum.
Íslensku stuðningsmennirnir á leiknum gegn Svíum. Ljósmynd/Gordan Lausic
mbl.is