Bjarki segir hugmyndafræðina sterka

Bjarki Már Gunnarsson steytir hnefana í Spaladium-höllinni á föstudaginn.
Bjarki Már Gunnarsson steytir hnefana í Spaladium-höllinni á föstudaginn. Ljósmynd/Gordan Lausic

Vörn Íslands lofaði afskaplega góðu í fyrsta leiknum á EM í Split þegar Ísland lagði Svíþjóð að velli 26:24. Í dag verður nóg að gera hjá Íslendingum í vörninni gegn firnasterku liði Króatíu sem fær auk þess mikinn stuðning 12 þúsund áhorfenda í Spaladium-höllinni. Mbl.is spjallaði við Bjarka Má Gunnarsson um varnarleikinn. 

Bjarki hóf leikinn í vörninni gegn Svíum og lék fyrir miðri vörninni ásamt Ólafi Guðmundssyni. „Þegar markvörðurinn er í svona ham þá fær maður aukið sjálfstraust. Það var alveg frábært hvernig þetta spilaðist og okkar upplegg gekk upp,“ sagði Bjarki tekur fram að margt sé hægt að bæta fyrir leikinn gegn Króatíu í kvöld. 

„Við horfðum á leikinn á fundi í morgun og það er nóg af atriðum við við getum bætt. Sérstaklega voru dæmi um það í síðari hálfleik en einnig eitthvað í fyrri hálfleik. Við getum heilmikið fyrir Króatíuleikinn. Björgvin varði til dæmis mörg skot maður á móti manni í fyrri hálfleik. En þegar það gerðist þá jók það sjálfstraustið hjá okkur og dró tennurnar úr Svíum í leiðinni. Maður finnur það alveg þegar maður er inni á vellinum hvernig vígtennurnar fara úr andstæðingunum þegar markvörðurinn kemst í stuð.“

Í aðdraganda stórmóta í handbolta er oft svolítið erfitt að átta sig á hvort varnarleikurinn muni smella þegar á hólminn er komið. Eins og Geir Sveinsson landsliðsþjálfari minntist á í Morgunblaðinu voru menn svartsýnir varðandi vörnina fyrir HM í fyrra. En þegar í mótið var komið var vörnin fín. Hafði Bjarki góða tilfinningu fyrir vörninni í aðdraganda EM í Króatíu? „Já já. Geir leggur mikið upp úr vörninni og við æfum hana mikið á æfingum. Hann er að vinna með sterka hugmyndafræði finnst mér sem á að geta gengið upp. Á morgun kemur í ljós hvort hún gangi upp gegn mjög sterkum andstæðingi,“ sagði Bjarki Már Gunnarsson við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert