Í undanúrslitum í fyrsta sinn í 16 ár

Kristján Andrésson er kominn með lærisveina sína í undanúrslitin á …
Kristján Andrésson er kominn með lærisveina sína í undanúrslitin á EM. Ljósmynd/EHF

Þrjú af liðunum fjórum sem eru komin í undanúrslitin á Evrópumóti karla í handknattleik hafa unnið Evrópumeistaratitilinn og það oftast allra liða.

Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, hafa unnið Evrópumeistaratitilinn oftast eða fjórum sinnum en í fyrsta skipti frá því þeir hömpuðu titlinum á heimavelli árið 2002 eru þeir í undanúrslitunum.

Frakkar, sem er eina liðið sem hefur unnið alla sex leiki sína á Evrópumótinu, hafa unnið titilinn þrisvar sinnum og Danir hafa tvívegis orðið Evrópumeistarar.

Spánverjar eru eina liðið af undanúrslitaliðunum sem ekki hefur landað Evrópumeistaratitlinum.

Undanúrslitin fara fram á morgun. Klukkan 17 eigast við Frakkland og Spánn og klukkan 19.30 leiða saman hesta sína Danmörk og Svíþjóð. Klukkan 14.30 á morgun mætast Króatía og Tékkland í leiknum um 5. sætið. Á sunnudaginn verður spilað til úrslita á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert