Kristján með Svía í úrslit á EM

Leikmenn sænska landsliðsins dansa í leikslok í Zagreb Arena í …
Leikmenn sænska landsliðsins dansa í leikslok í Zagreb Arena í kvöld. APF

Sænska landsliðið í handknattleik, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, er komið í úrslit á Evrópumeistaramótinu í Króatíu. Svíar unnu Dani með eins marks mun, 35:34, eftir framlengda viðureign. Sænska landsliðið mætir spænska landsliðinu í úrslitaleik á sunnudagskvöldið en Danir og Frakkar verða að gera sér að góðu að leik um bronsverðlaunin. 

Þetta er í fyrsta sinn í 16 ár sem Svíar leika til úrslita á Evrópumeistaramóti í handknattleik karla. Síðast gerðu þeir það á heimavelli og unnu þá Þýskalandi í úrslitaleik. 

Sænska landsliðið var með yfirhöndina í leiknum í dag nánast frá upphafi. Þeir voru með tveggja marka forskot í hálfleik, 16:14, og náðu mest fimm marka forskoti eftir nærri tíu mínútur í síðari hálfleik. 

Danir sóttu í sig veðrið og náðu að jafna metin, 25:25, þegar skammt var til leiksloka. Svíar svöruðu með þremur mörkum og virtust vera með leikinn í höndum sér. Danir lögðu ekki árar í bát og skoruðu m.a. tvö mörk á síðustu mínútu leiksins, þar af síðara markið á síðustu sekúndu, og tryggðu sér þar með framlengingu. 

Svíar héldu frumkvæðinu alla framlenginguna og unnu sanngjarnan sigur.

Mattias Zachrisson skoraði átta mörk fyrir sænska liðið og var markahæstur. Jim Gottfridsson og Niclas Ekberg skoruðu sjö mörk hvor.  Mikkel Hansen skoraði flest mörk í danska liðinu, 12, þar af átta úr vítaköstum. Rasmus Lauge var næstur með 11 mörk. 

Miklu máli skipti að Andreas Palicka varði afar vel í marki Svía. Hann var með 40% hlutfallsmarkvörslu. Á sama tíma virtust markverðir danska liðsins vera miður sín. Jannick Green og Niklas Landin vörðu 24% þeirra skota sem á mark þeirra kom. 

Andreas Palicka var frábær í sænska markinu í kvöld í …
Andreas Palicka var frábær í sænska markinu í kvöld í undanúrslitaleiknum við Dani. AFP
Kristján Andrésson var pollrólegur eins og venjulega þegar hann stjórnaði …
Kristján Andrésson var pollrólegur eins og venjulega þegar hann stjórnaði sænska landsliðinu til sigurs í undanúrslitum á EM í kvöld. AFP
mbl.is