Norðmenn neituðu að fljúga og fóru í rútu

Norðmenn fagna sigri sínum á Litháen í lokaumferð F-riðilsins í …
Norðmenn fagna sigri sínum á Litháen í lokaumferð F-riðilsins í gær. AFP

Noregur og Rússland komust áfram úr F-riðli Evrópumóts karla í handknattleik sem var leikinn í Kosice í Slóvakíu og leika bæði í milliriðli númer tvö sem er leikinn í Bratislava.

Liðin áttu að fljúga saman frá Kosice til Bratislava í dag en því neituðu Norðmenn. Þrír úr liði Rússa hafa greinst með kórónuveiruna á meðan þeir norsku hafa alveg sloppið við smit í sínum hópi og þannig vilja þeir halda því.

Norðmenn ákváðu þess vegna að fara frekar með rútu en flugi. Um 440 kílómetrar eru á milli borganna og um tæplega fimm klukkutíma akstur að ræða á meðan flugið á milli þeirra tekur aðeins 55 mínútur.

Rússar unnu Norðmenn nokkuð óvænt, 23:22, og unnu því F-riðilinn. Þeir taka því með sér stigin úr þeim leik.

mbl.is