„Í heimsklassa“

Guðmundur fagnar ásamt sínum mönnum.
Guðmundur fagnar ásamt sínum mönnum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Þetta var stórkostlegur leikur og ólýsanlegur raunverulega. Við spiluðum stórkostlegan handbolta og það þurfa menn að gera ef þeir ætla að vinna ólympíumeistarana,“ sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þ. Guðmundsson þegar mbl.is ræddi við hann eftir magnaðan sigur Íslendinga á Frökkum á EM karla í handknattleik. 

„Sóknarleikurinn var endurskipulagður í dag eftir að ég fékk þessar fréttir um að þeir [Arnar Freyr og Janus Daði] yrðu ekki með. Við þurftum að gera mjög mikið á stuttum tíma. Við unnum með taktík töfluna í stað þess að vinna með videó og koma mönnum inn í það sem við ætluðum að gera. Varnarleikurinn var í heimsklassa, markvarslan var í heimsklassa og sóknarleikurinn var í heimsklassa. Ég ætla bara að segja þetta eins og þetta. Þú þarft að spila á þessum nótum ef þú ætlar að vinna Frakka með átta marka mun.“

Viktor Gísli sýndi í kvöld hvað í honum býr. „Já það gerði hann svo sannarlega.“

Erfitt að halda yfirvegun við þessar aðstæður

Maður fékk á tilfinninguna í kvöld að Guðmundur viti nákvæmlega hvernig hann vill spila á móti Frökkum. Guðmundur segir að leikáætlanir séu vel skilgreindar gegn öllum andstæðingum. 

„Við erum með vel skilgreint leikplan í hverjum einasta leik. Leikmennirnir eru búnir að átta sig á því og hafa trú á því. Við höfum trú á okkur sem liði og öllu því sem við erum að gera. Þetta hefur verið langt ferli og nú erum við komnir á ákveðinn stað og þurfum að vinna skynsamlega út frá því í framhaldinu.“

Guðmundur og Ágúst Þór Jóhannsson annar aðstoðarþjálfaranna.
Guðmundur og Ágúst Þór Jóhannsson annar aðstoðarþjálfaranna. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Smitunum heldur áfram að fjölga og á leikdegi í dag bættust við tvö smit þegar Arnar Freyr og Janus Daði reyndust jákvæðir. Alls eru þá átta leikmenn smitaðir í íslenska hópnum og annar sjúkraþjálfaranna. Þyrmdi ekki yfir Guðmund þegar hann fékk fréttirnar í dag?

„Jú jú ég hef virkilega þurft að taka á því til að halda yfirvegun, ró og trú. Það höfum við gert,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is í kvöld. 

mbl.is