Finna fyrir áhuganum heima fyrir

Elvar skorar með föstu skoti fyrir utan punktalínu efst í …
Elvar skorar með föstu skoti fyrir utan punktalínu efst í hægra hornið í leiknum á móti Frökkum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Mbl.is ræddi við Elvar Ásgeirsson um gang mála hjá Íslendingum á EM karla í handknattleik áður en landsliðið æfði í dag. 

Elvar var í tuttugu manna hópnum sem fór til Ungverjalands. Eftir leikina þrjá í riðlakeppninni kom hann inn í liðið og beint í byrjunarliðið. Lék prýðilega bæði gegn Dönum og Frökkum. Eftir glæsilegan sigur gegn Frökkum, þar sem Elvar leikur einmitt sem atvinnumaður, á Ísland enn ágæta möguleika að komast í undanúrslit á EM. Íslenska liðið er því í mjög spennandi stöðu.

„Já hún er það. Við settum okkur í góða stöðu með því að ná í tvö stig í gær. Það eru allir möguleikar í hendi og þetta verða æsispennandi tveir leikir sem eftir eru í milliriðlinum. Vonandi getum við farið sem lengst,“ sagði Elvar þegar mbl.is ræddi við hann. 

Elvar Ásgeirsson reynir að komast í gegnum frönsku vörnina með …
Elvar Ásgeirsson reynir að komast í gegnum frönsku vörnina með „pólsku fintunni“ svokölluðu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Finnur Elvar fyrir miklum áhuga að heiman? „Já að sjálfsögðu. Margir senda manni hamingjuóskir og hversu ánægð þau séu með liðið. Við finnum fyrir því að það er alltaf áhugi fyrir handbolta og þegar það gengur svona vel þá verður allt tryllt,“ sagði Elvar og spurður um Króatana segir hann að þarf vanti ekki hæfileikana. 

„Mér líst ágætlega á að mæta þeim en þeir eru með mjög gott lið. Þeir eru hlaðnir gæðum. Þeir spila hörkuvörn þar sem þeir eru ágengir og með dálítil læti. Þeir hafa höllina með sér og þetta verður mjög erfitt. Við höfum hins vegar fulla trú á áherslum og ætlum að halda áfram því sem við höfum gert vel. Vonandi getum við lagað það sem betur má fara og stefnum klárlega á tvö stig á morgun,“ sagði Elvar Ásgeirsson í samtali við mbl.is í Búdapest í dag. 

mbl.is