Viggó var á Frakkaleiknum árið 2007

Viggó Kristjánsson í leiknum gegn Frökkum.
Viggó Kristjánsson í leiknum gegn Frökkum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Viggó Kristjánsson lék geysilega vel í sigrinum mikilvæga gegn Frökkum á EM í handknattleik í Búdapest í gærkvöldi. 

Gísli Þorgeir Kristjánsson lék frábærlega á miðjunni í fyrstu þremur leikjunum þar til hann fékk kórónuveiruna. Janus Daði Smárason tók við keflinu og var mjög góður á móti Dönum. Góð frammistaða Janusar var ein ástæða þess að Íslendingar héldu í við Danina. Í gær fékk hann veiruna og Viggó sem alla jafna leikur sem skytta lék sem leikstjórnandi. Íslenska liðið var þá með þrjá örvhenta inn á sem er heldur sjaldgæft. 

Viggó tjáði mbl.is að hann hefði sjálfur haft frumkvæði að því að nefna þennan möguleika að hann yrði á miðjunni. 

„Ég sá tækifæri í þessu fyrir mig og ég hafði nefnt við Gumma [landsliðsþjálfara] fyrir Danaleikinn að ég myndi gjarnan vilja spila á miðjunni. Ég prófaði það aðeins á móti Dönum og fékk svo traustið í dag. Það skilaði sér heldur betur,“ sagði Viggó þegar mbl.is spjallaði við hann eftir að flautað var til leiksloka í MVM höllinni. 

Sex leikmenn höfðu smitast og annar sjúkraþjálfarinn fyrir leikinn gegn Dönum. Á leikdegi í gær bættust tveir leikmenn í þann hóp. Hefði ekki verið auðveldast að fara að grenja þegar þau tíðindi bættust við? Viggó hlær að orðalaginu. „Ég segi það nú ekki en maður hafði vonast til þess að þetta væri loksins komið og það yrðu ekki fleiri smit í hópnum.“

Viggó kominn í gegnum vörn Frakka hægra megin og þá …
Viggó kominn í gegnum vörn Frakka hægra megin og þá hafnar boltinn iðulega í netinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Á riðlakeppninni í lokakeppni HM í Þýskalandi árið 2007 rótburstaði Ísland lið Frakklands og tryggði sér þannig sæti í milliriðli í keppninni. Geysilega eftirminnilegur leikur og stórbrotin frammistaða hjá íslenska liðinu og einungis „korteri“ áður en franska landsliðið lagði undir sig handboltaheiminn ef svo má segja að vann mörg stórmót næstu ár á eftir. 

Og viti menn. Viggó Kristjánsson var á áhorfendapöllunum á leiknum í Þýskalandi, þá 14 ára, og nú fimmtán árum síðar skoraði hann 9 mörk þegar Ísland endurtók leikinn og burstaði ólympíumeistarana. 

„Ég hef séð marga landsleiki sjálfur og var í höllinni þegar Ísland vann Frakkland árið 2007. Þessi sigur í kvöld var stærri en sá sigur. Þetta var ólýsanlegt. Ég veit ekki hvað okkur vantaði marga lykilmenn en Frakkarnir nánast með full mannað lið. Allt undir hjá báðum liðum og draumurinn um að komast í undanúrslit lifir. Það var engin spurning að við ætluðum okkur sigur gegn Dönum og Frökkum.

Sverre Jakobsson, Guðmundur Þ. Guðmundsson og Alfreð Gíslason á HM …
Sverre Jakobsson, Guðmundur Þ. Guðmundsson og Alfreð Gíslason á HM í Þýskalandi 2007. Alfreð sem nú stýrir Þýskalandi á EM var þá landsliðsþjálfari Íslands og Guðmundur var þá aðstoðarþjálfari. mbl.is/Gunther Schröder

En ég er nokkuð viss um að enginn nema leikmennirnir sjálfir haft trú á því að við myndum eiga nokkurn einasta möguleika gegn þessu franska liði. Við héldum í við þá í byrjun en svo náðum við forskoti og þeir reyndu allt en áttu bara engin svör,“ sagði Viggó Kristjánsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert