Höfum lent í áföllum en staðið í lappirnar

Ómar Ingi Magnússon sækir að norsku vörninni í dag.
Ómar Ingi Magnússon sækir að norsku vörninni í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Þetta var gríðarlega svekkjandi. Við börðumst í 60 mínútur og þetta var grátlegt. Mér fannst við eiga sigurinn skilið en svona fór þetta,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, markahæsti leikmaður Íslands í 33:34-tapi gegn Norðmönnum í leik um fimmta sætið á EM í handbolta í dag, í samtali við RÚV.

Norðmenn voru fjórum mörkum yfir í hálfleik en íslenska liðið neitaði að gefast upp. Úrslitin réðust að lokum í framlengingu.  

„Við erum aldrei út úr neinum leik, bara að vera Íslendingar. Ég er gríðarlega stoltur af liðinu fyrir þessa baráttu í dag. Við höfum lent í áföllum og ég er stoltur af liðinu að hafa alltaf staðið í lappirnar og sýnt mátt,“ sagði Ómar.

Mikið álag var á Ómari á mótinu, enda fékk hann litla hvíld í fjarveru annarra lykilmanna. Selfyssingurinn er markahæstur allra á EM með 59 mörk. „Ég er smá þreyttur og tek frí næstu daga,“ viðurkenndi Ómar.

mbl.is