Svíar í úrslit eftir mikla dramatík

Svíþjóð vann Frakkland eftir mikla dramatík.
Svíþjóð vann Frakkland eftir mikla dramatík. AFP

Svíþjóð og Spánn mætast í úrslitum Evrópumóts karla í handbolta í annað skiptið á síðustu þremur mótum. Þetta varð ljóst eftir að Svíþjóð vann dramatískan 34:33-sigur á Frakklandi í seinni undanúrslitaleiknum í Búdapest í kvöld.

Frakkar byrjuðu miklu betur og komst í 5:1 í upphafi leiks. Svíar gáfust ekki upp því skömmu síðar var staðan orðin 7:6. Sænska liðið komst svo yfir í fyrsta skipti í stöðunni 11:10 og var staðan í hálfleik 17:14, Svíþjóð í vil.

Svíar skoruðu tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og náðu því fimm marka forskoti. Sænska liðið hélt þriggja til fjögurra marka forskoti næstu mínútur en þegar fimm mínútur voru eftir minnkuðu Frakkar muninn í 31:29.

Jim Gottfridsson kom Svíum í 34:32 þegar skammt var eftir en Aymeric Minne minnkaði muninn þegar tæp mínúta var eftir. Svíar misstu boltann í kjölfarið og Frakkar fengu gott tækifæri til að jafna í blálokin en Andreas Palicka í marki Svía varði frá Ludovic Fabregas í dauðafæri og tryggði sænskan sigur og úrslitaleik gegn Spánverjum á sunnudag.

Jim Gottfridsson skoraði níu mörk fyrir Svíþjóð og lagði upp fjölmörg önnur á liðsfélaga sína. Lucas Pellas gerði sjö mörk. Hugo Descat og Aymeric Minne gerðu átta mörk hvor fyrir Frakkland. 

Sömu lið mættust í úrslitum á EM í Króatíu árið 2018 og hafði Spánn þá betur, 29:23.

mbl.is