Terry: Styð Drogba heilshugar

Didier Drogba hellir sér yfir Österbo dómara eftir leikinn.
Didier Drogba hellir sér yfir Österbo dómara eftir leikinn. Reuters

John Terry, fyrirliði Chelsea, segir að framkoma Didier Drogba, framherja liðsins, eftir leikinn gegn Barcelona í gærkvöld þar sem hann veittist að dómara leiksins, hefði verið mjög skiljanleg.

Tíu leikmenn Barcelona náðu að jafna metin, 1:1, í uppbótartíma með marki frá Andrés Iniesta en leikmenn Chelsea voru afar ósáttir við framgöngu Toms Hennings Överbos í leiknum og töldu hann hafa haft augljósar vítaspyrnur af liðinu.

Drogba hljóp að Överbo og aðstoðarmönnum hans og hellti sér yfir þá, og hljóp síðan að næstu sjónvarpsmyndavél og öskraði að henni: „Sáuð þið þetta - þetta er hneyksli." Samherjar Drogba og öryggisverðir á Stamford Bridge náðu að lokum að hemja kappann.

„Ég styð Drogba og viðbrögð hans heilshugar. Hann spilar til sigurs, þið sáuð eldmóðinn í honum í leiknum og eldmóðinn í leikslok. Það er erfitt að hafa stjórn á skapsmunum sínum þegar leikmenn eru svona hátt uppi í leikslok, tilfinningarnar flæða, og svo segja menn í myndverum Sky að svona ættum við ekki að bregðast við.

Það er útilokað annað eftir að sex til sjö ákvarðanir dómarans eru þér í óhag, frammi fyrir þínum eigin stuðningsmönnum. Ég er búinn að horfa á atvikin öll aftur og í tveimur þeirra er um augljósar vítaspyrnur að ræða. Hvernig á manni að líða? Ef við hefðum fengið eina þeirra, hefðum við komist í 2:0. Við  gerðum allt sem stjórinn lagði fyrir okkur í leiknum en erum úr leik vegna rangra ákvarðana dómarans," sagði Terry við fréttamenn, og beindi áframhaldandi gagnrýni að norska dómaranum og UEFA.

„Þetta er fáránlegt. Það dreymir alla um að komast í úrslitaleikinn en við erum úr leik vegna slakrar dómgæslu. Við fengum dómara sem hefur ekki dæmt nema tíu Meistaradeildarleiki á ferlinum. Að fela honum undanúrslitaleik á Stamford Bridge er fyrir neðan allar hellur. Þegar dómari gerir slæm mistök á hann að taka afleiðingunum. Leikmenn eru settir útúr liði ef þeir standa sig ekki en dómararnir halda áfram að dæma stóru leikina á stóru völlunum. UEFA þarf að  gefa út hverjir séu fjórir bestu dómararnir og þeir eiga að dæma undanúrslitaleikina fjóra," sagði Terry.

mbl.is

Bloggað um fréttina