Biðst afsökunar á leikaraskap

Theo Walcott.
Theo Walcott. Reuters

Theo Walcott, leikmaður Arsenal, hefur beðist afsökunar á að hafa reynt að krækja í vítaspyrnu með því að láta sig detta í leik liðsins gegn Leeds í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í gær.

Atvikið átti sér stað undir lok leiksins en Walcott féll þá í vítateignum eftir návígi við Paul Connolly, varnarmann Leeds. Rétt á eftir var hinsvegar réttilega dæmd vítaspyrna þegar Ben Parker togaði í Walcott sem var í dauðafæri, og Cesc Fabregas jafnaði, 1:1, á síðustu stundu úr vítaspyrnunni.

„Ég vil biðja báða knattspyrnustjórana afsökunar því ég lét mig detta til þess að reyna að fá vítaspyrnu. Ég spurði einn leikmanna Leeds hvort hann hefði reynt það sama og hann svaraði að líklega hefði hann gert það. Ég hef ekki lagt þetta í vana minn, sé eftir þessu og biðst afsökunar. Þetta er eitthvað sem ég vil ekki að sjáist til mín," sagði Walcott í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

„Ég hef heyrt leikmenn tala um að ef þeir finni snertingu sé um að gera að láta sig detta en slíkt er tvíeggjað. Ég er ósáttur við sjálfan mig að hafa reynt þetta. Eftir leikinn sló ég á létta strengi við dómarann og spurði hvort það hefði sést að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem ég reyndi þetta.

Ég get ekki talað fyrir munn annarra leikmanna en vildi að það kæmi fram hvernig ég lít á þetta og vona að fólk virði það," sagði Theo Walcott.

mbl.is