Aftur unnu Eiður og félagar 3:0

Eiður Smári er í liði Fulham í dag.
Eiður Smári er í liði Fulham í dag. Reuters

Eiður Smári Guðjohnsen lék allan leikinn fyrir Fulham og átti þátt í fyrsta markinu þegar liðið vann 3:0 sigur í annað sinn á fjórum dögum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Fjórum öðrum leikjum var að ljúka.

Roy Hodgson heldur áfram að gera góða hluti með WBA sem vann Aston Villa 2:1 þrátt fyrir að missa mann af velli.

Blackburn kom sér aðeins frá fallsvæðinu með 1:0 sigri á Bolton. Wigan er áfram í fallsæti eftir 1:1 jafntefli við Everton en liðið er jafnt Blackpool að stigum eftir að Blackpool gerði markalaust jafntefli við Stoke í dag.

Fylgst var með gangi mála í leikjunum hér á mbl.is:

Sunderland - Fulham, 0:3

81. Eiður Smári átti ágætt skot utan teigs en boltinn fór naumlega framhjá markinu.

73. Fulham-menn fóru langt með að tryggja sér sigurinn þegar Simon Davies skoraði sitt annað mark af harðfylgi eftir fyrirgjöf frá Bobby Zamora.

61. Fulham jók muninn þegar Simon Davies skoraði eftir sendingu frá Steve Sidwell út í teiginn.

34. Fulham komst yfir með marki frá Gael Kakuta. Eiður Smári og Bobby Zamora léku boltanum á milli sín við hægra vítateigshornið áður en Zamora sendi boltann í miðjan teiginn á Kakuta sem tókst að spyrna knettinum í netið.

20. Eiður Smári bjó sér til ágætt færi rétt utan markteigsins en þrumaði boltanum yfir markið.

Blackburn - Bolton, 1:0

21. Michel Salgado kom boltanum á Martin Olsson sem skoraði með hnitmiðuðu skoti af um 20 metra færi.

WBA - Aston Villa, 2:1

84. Manni færri komust WBA-liðar yfir, 2:1, þegar Youssuf Mulumbu skoraði eftir stungusendingu frá Simon Cox.

63. Paul Scharner lagði upp markið fyrir Odemwingie en fékk skömmu síðar sitt annað gula spjald og þar með rautt.

60. WBA jafnaði metin og auðvitað skoraði Peter Odemwingie. Hann er þar með fyrsti leikmaður WBA til að skora fjóra leiki í röð.

4. Gestirnir komust yfir þegar Abdoulaye Meite kom boltanum í eigið mark með afar klaufalegum hætti.

Wigan - Everton, 1:1

78. Everton fékk aðra vítaspyrnu þegar Hugo Rodallega handlék boltann innan teigs. Leighton Baines tók spyrnuna í þetta skiptið og skoraði af öryggi.

35. Everton fékk kjörið tækifæri til að jafna þegar vítaspyrna var dæmd á N'Zogbia. Mikel Arteta tók spyrnuna en Ali Al-Habsi varði.

20. Charles N'Zogbia kom Wigan yfir með laglegu marki eftir sendingu frá James McCarthy.

Blackpool - Stoke, 0:0

mbl.is

Bloggað um fréttina