Mancini óhress að fá ekki að kaupa

Roberto Mancini hefur áhyggjur af stöðu mála í sínum hópi.
Roberto Mancini hefur áhyggjur af stöðu mála í sínum hópi. Reuters

Roberto Mancini knattspyrnustjóri Manchester City er óhress með að fá ekki að kaupa einn til þrjá leikmenn í janúar og kveðst ekki geta mætt með fullskipaðan varamannabekk í bikarslaginn gegn Manchester United á sunnudaginn vegna mikilla forfalla.

Yaya Touré, Kolo Touré, Mario Balotelli og Gareth Barry verða ekki með eins og áður hefur komið fram, og tvísýnt er um Edin Dzeko vegna meiðsla og Samir Nasri vegna veikinda.

„Við erum með 17 leikmenn tilbúna fyrir sunnudaginn og líklega getum við ekki fyllt varamannabekkinn. Fyrir tveimur mánuðum benti ég á að við gætum lent í vandræðum í janúar. Við spilum fjóra mikilvæga deildaleiki án Yaya. Ef framherjarnir okkar eru meiddir þurfum við að kaupa einn í viðbót, og sem stendur er ég bara með einn framherja, Sergio Agüero. Þá er ég bara með tvo miðjumenn, James Milner og Nigel de Jong. Tveir verða fjarverandi í heilan mánuð og ef meiri forföll verða þá þarf ég fleiri menn í hópinn," sagði Mancini við The Guardian.

Manchester City tapaði um 200 milljónum punda á síðasta rekstrarári og Mancini var fyrr í vetur gerð grein fyrir því að til þess að kaupa nýja leikmenn yrði að selja aðra í staðinn.

„Já, þetta er vandamálið. En ef okkur vantar leikmenn verður þetta erfitt. Við erum ekki United. Bæði United og Chelsea hafa unnið marga titla um árabil. Við gætum hinsvegar unnið okkar fyrsta meistaratitil í langan tíma og verðum að gera allt sem við getum til þess. Við gætum bætt einum leikmanni í hópinn. Við höfum verið efstir allt tímabilið og verðskuldum það. En tímabilið er langt og það verður erfitt.

Við erum í vandræðum því Yaya er afar mikilvægur leikmaður. Þetta er annað með Kolo því við höfum átta varnarmenn og þar eru ekki vandamál. En miðjan hjá okkur er stórt vandamál og fyrir leikinn á sunnudag er ég bara með tvo menn þar," sagði Mancini.

mbl.is

Bloggað um fréttina