Grétar Rafn heillaði forráðamenn Fleetwood

Grétar Rafn Steinsson í landsleik.
Grétar Rafn Steinsson í landsleik. mbl.is/Kristinn

Grétar Rafn Steinsson fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu starfar í dag sem tæknistjóri (technical director) hjá enska C-deildarliðinu Fleetwood Town og var í viðtali við Sky Sports í gær en félagið hefur farið upp um sex deildir á síðustu 10 árum og er stofnað árið 1997.

Þar talaði hann meðal annars um þetta nýja starf sitt og um reynslu sína af knattspyrnustjóra Manchester United, Louis van Gaal.

Grétar hefur gráðu í knattspyrnustjórnun og á meðal annars að sjá um þau vaxandi umsvif sem fylgja því að spila í efri deildum á Englandi.

„Ég er mjög metnaðarfullur og félagið er það líka. Það voru ýmsir hlutir hjá okkur sem hreinlega smullu saman. Félaginu bíður stórt verkefni að vaxa enn meira og mér fannst þetta virkilega áhugavert,“ sagði Grétar Rafn í samtali við Sky Sports.

„Ég sá tækifæri felast í ungmennastarfinu, samfélaginu, þróun liðsins og leikvallarins. Ef þú ert frá svæðinu þá veistu hver stjórnarformaðurinn er og veist hvað hann vill gera. Ég þekkti fólk sem vinnur hérna og gat séð möguleikana,“ sagði Grétar Rafn sem heillaði forráðamenn félagsins með kynningu á þeirri framtíðarsýn sem hann hafði fyrir Fleetwood en liðið spilar í Arsenal-litunum og heimavöllur þess heitir Highbury, líkt og fyrrum heimavöllur Skyttanna.

Grétar Rafn kom víða við á ferli sínum og lék með félögum í Sviss, Tyrklandi og á Englandi. Þá lék hann einnig í Hollandi með AZ Alkmaar undir stjórn Louis van Gaal og ber Grétar honum söguna vel.

„Hann er sá besti þarna úti. Hann er frábær maður og frábær þjálfari. Hann passar upp á allt og alla og þú getur ekki fundið neinn sem starfar með honum sem talar illa um hann,“ sagði Grétar.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér.

mbl.is