Cech hefur oftast haldið markinu hreinu

Petr Cech braut blað í sögu ensku úrvalsdeildarinnar í leik …
Petr Cech braut blað í sögu ensku úrvalsdeildarinnar í leik Arsenal gegn Watford í gær. AFP

Tékkneski markvörðurinn Petr Cech sem leikur með Arsenal náði merkum áfanga þegar hann hélt marki sínu hreinu í leik Arsenal gegn Watford í gær.

Cech hélt þá marki sínu hreinu í 171. sinn og varð þar af leiðandi sá markvörður sem hefur oftast haldið marki sínu hreinu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.  

Það gerir áfangann ekki síður merkilegan að Cech hefur haldið hreinu í 171 leik af þeim 341 leik sem hann hefur leikið í ensku úrvalsdeildinni með Chelsea og Arsenal. Það þýðir að Cech hefur haldið hreinu í helmingi þeirra leikja sem hann hefur spilað í ensku úrvalsdeildinni. 

Sá sem kemur næstur Cech á listanum yfir markverði sem oftast hafa haldið hreinu er David James, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Englands, en 170 sinnum þurfti James ekki að ná í boltann í eigið net.

Þar á eftir á listanum er ástralski landsliðsmarkvörðurinn Mark Schwarzer sem nú er á mála hjá Leicester City. Scwarzer náði að koma í veg fyrir að andstæðingar liða hans næðu að skora í 152 leikjum með Middlesbrough, Fulham og Chelsea. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert