Tel mig hafa gert rétt

Harry Kane hjá Tottenham og Gylfi Þór Sigurðsson hjá Swansea ...
Harry Kane hjá Tottenham og Gylfi Þór Sigurðsson hjá Swansea hafa skorað grimmt fyrir sín lið að undanförnu. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson hefur svo sannarlega verið atkvæðamikill með liði Swansea City í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Gylfi hefur dregið vagninn fyrir velska liðið með frábærri frammistöðu, sérstaklega frá áramótum en af mörkunum 9 sem hann hefur skorað í deildinni á tímabilinu hefur hann skorað 7 á árinu 2016.

Aðeins Harry Kane, fyrrverandi samherji hans hjá Tottenham, og Sergio Agüero, leikmaður Manchester City, hafa skorað fleiri mörk á árinu. Gylfi hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína, ekki bara hjá fjölmiðlum heldur hafa samherjar hans verið iðnir við að hrósa honum sem og mótherjarnir.

Spurður út þetta feiknarform sem hann hefur verið í sagði Gylfi í samtali við Morgunblaðið: „Jú, það er búið að ganga vel hjá mér og sérstaklega eftir áramótin sem og öllu liðinu. Þetta helst allt í hendur. Það er erfitt að segja til um það hvað hafi orðið til þess að mér hefur gengið betur eftir áramótin. Það er örugglega eitthvað þó svo ég viti ekki sjálfur hvað það er. Ég er að gera alveg sömu hluti og framan af tímabilinu en mörkin hafa verið að detta inn hjá mér síðustu mánuðina,“ segir Gylfi.

Hef haldið mig við mína rútínu

Einhverjir hafa tengt þetta við stjóraskiptin hjá liðinu í desember. Hvað segir þú um það?

„Það getur svo sem vel verið en ég hef haldið mig við mína rútínu og hún hefur bara reynst vel. Um leið og maður byrjar að skora reglulega þá eykst sjálfstraustið og manni líður bara eins og maður geti skorað í hverjum leik og þannig er staðan hjá mér í augnablikinu. Ég er líka alveg heill heilsu og það hefur hjálpað heilmikið til.“

Er þetta ekki bara eitt besta skeiðið hjá þér síðan þú fórst út í atvinnumennskuna?

„Jú, ég held það bara hvað úrvalsdeildina varðar. Mér gekk mjög svipað eftir áramótin hjá Reading í B-deildinni fyrir nokkrum árum og þá held ég að ég hafi skorað 15 mörk eftir áramótin. Það gengur vel að skora núna og á mikilvægum tíma fyrir liðið, sem hefur ekki skorað mikið á tímabilinu,“ segir Gylfi, sem er markahæsti leikmaður Swansea í vetur.

Nánar er rætt við Gylfa í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag