Síðast var það níu marka leikur

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Það er að duga að drepast fyrir Gylfa Þór Sigurðsson og samherja hans í Swansea þegar þeir sækja Crystal Palace heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu annað kvöld.

Það hefur verið allt í kaldakoli hjá Swansea síðustu vikurnar og liðið situr eitt og yfirgefið á botni deildarinnar með 12 stig. Crystal Palace er þó skammt undan en liðið er með 16 stig í 17. sæti deildarinnar.

Swansea hefur tapað fjórum leikjum í röð og í þeim leikjum hefur liðið skorað 2 mörk en fengið á sig 13. Ekki er langt um liðið frá því liðin áttust við á heimavelli Swansea en í lok nóvember hafði Swansea betur í sannkölluðum spennutrylli en lokatölur urðu 5:4.

Í þeim leik komst Swansea í 3:1, Palace náði síðan 4:3 forystu en Swansea skoraði tvö mörk í uppbótartíma og fagnaði sigri.

Gylfi Þór skoraði eitt mark í leiknum og lagði upp eitt en hann átti sinn þátt í þremur hinum mörkum liðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina