Stóri Sam segir nýju reglurnar vera bull

Sam Allardyce er ekki sáttur við nýjar reglur enska knattspyrnusambandsins.
Sam Allardyce er ekki sáttur við nýjar reglur enska knattspyrnusambandsins. AFP

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Crystal Palace, er allt annað en sáttur við nýjar reglur sem enska knattspyrnusambandið ætlar að innleiða frá og með næstu leiktíð. Sambandið ætlar að taka hart á leikaraskap og úrskurða leikmenn í tveggja leikja bann, gerist þeir sekir um að blekkja dómara.

Leikmenn sem blekkja dómarann með þeim afleiðingum að dæmd sé vítaspyrna eða andstæðingur rekinn af velli, á í hættu á að vera úrskurðaður í bann, sé sérstök þriggja manna nefnd sammála um að leikaraskapur hafi átt sér stað. 

„Hvað gerist ef dómari spjaldar leikmann fyrir leikaraskap ef brot átti sér stað? Þetta er algjört bull," sagði Allardyce.

„Það væri réttara að dómarar gætu notast við myndbönd á meðan á leik stendur til að refsa leikmönnum fyrir leikaraskap. Þá væri hægt að reka menn út af í tíu mínútur, en leyfa þeim síðan að koma aftur inn á. Það er algjör óþarfi að borga fólki fyrir að skoða þetta eftir leik," sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert